Fréttir

LEX mun birta hér öðru hverju fréttir af málefnum stofunnar og starfsmönnum hennar, auk auglýsinga um útgáfu efnis frá LEX

Fréttir

ÚTGÁFA

LEX lögmannsstofa leggur áherslu á að viðskiptavinir njóti þjónustu sérhæfðra starfsmanna eftir því sem viðkomandi verkefni kallar á. Slíkt tryggir ekki aðeins fyrsta flokks ráðgjöf handa við­skiptavinum okkar heldur tryggir það einnig að þjónustan sé eins hagkvæm og kostur er. Þá starfa reyndir mál­flytjendur fyrir dómsstólum landsins á öllum fagsviðum LEX.

Sveinn Snorrason, einn stofnenda LEX, látinn

7. september, 2018

Sveinn Snorrason Hæstaréttarlögmaður lést aðfaranótt mánudagsins 3. september s.l.

Upphaf LEX lögmannsstofu má rekja til þess að Sveinn Snorrason og Guðmundur Ingvi Sigurðsson sem þá voru fulltrúar hjá Sakadómi Reykjavíkur ákváðu að fara úr örygginu hjá ríkinu og opna lögmannsstofu. Sveinn byrjaði stofureksturinn 1. desember 1959 að Klapparstíg 26 í Reykjavík, en Guðmundur kom til starfa 2 mánuðum seinna. Nokkrum árum seinna bættust Jóhannes L.L. Helgason og Jónas A. Aðalsteinsson í hópinn á Klapparstígnum, en Jónas starfar enn á LEX. Þar með var lagður grunnur að því sem er lögmannsstofan LEX í dag. Sem betur fór ekki fyrir þeim, eins og Tómasi Guðmundssyni borgarskáldi og lögfræðingi forðum, sem hann lýsir svo í ljóðinu „Þegar ég praktíseraði“: „Það skorti ekki vitund á þessi húskynni, nema ofurlítinn praxís og útborgunartíma“. Verkefnin voru strax næg og stofan sem Sveinn stofnaði fyrir næstum 59 árum er nú næststærsta lögmannsstofa landsins. Það var Sveinn sem gaf stofunni heiti, LEX (lög á latínu), enda var hann latínumaður góður.

Það sem hefur alla tíð einkennt LEX sem vinnustað er létt andrúmsloft, nokkuð sem gleðimaðurinn Sveinn átt sinn þátt í að skapa. Þrátt fyrir að Sveinn hyrfi frá LEX fyrir margt löngu sagði hann sem betur fer ekki alveg skilið við stofuna, heldur kom reglulega í heimsókn og sagði skemmtisögur á kaffistofunni. Hann kvartaði stundum undan því að hann þekkti nú orðið fáa á LEX, en þegar betur var að gáð hafði hann gjarnan þekkt afa, ömmur, langafa og langömmur yngri starfsmannanna.

Að leiðarlokum færum við á LEX Sveini þakkir fyrir að hafa lagt grunninn að LEX, þakkir fyrir samstarfið, vináttuna og gleðina.

Aftur í fréttasafn