Fréttir

LEX mun birta hér öðru hverju fréttir af málefnum stofunnar og starfsmönnum hennar, auk auglýsinga um útgáfu efnis frá LEX

Fréttir

ÚTGÁFA

LEX lögmannsstofa leggur áherslu á að viðskiptavinir njóti þjónustu sérhæfðra starfsmanna eftir því sem viðkomandi verkefni kallar á. Slíkt tryggir ekki aðeins fyrsta flokks ráðgjöf handa við­skiptavinum okkar heldur tryggir það einnig að þjónustan sé eins hagkvæm og kostur er. Þá starfa reyndir mál­flytjendur fyrir dómsstólum landsins á öllum fagsviðum LEX.

LEX rekur mál fyrir EFTA-dómstólnum um innflutning á fersku kjöti

4. desember, 2015

Þriðjudaginn 2. desember sl. fór fram málflutningur í EFTA-dómstólnum í Lúxemborg vegna máls Ferskra kjötvara ehf. gegn íslenska ríkinu þar sem tekist er á um innflutningsbann á fersku kjöti til landsins. Héraðsdómur Reykjavíkur, þar sem málið er til umfjöllunar, hafði áður kveðið upp þann úrskurð að leita skyldi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu. LEX gætir hagsmuna Ferskra kjötvara ehf. í málinu og flutti Arnar Þór Stefánsson hrl. málið af þeirra hálfu fyrir EFTA-dómstólnum.

Málið á rætur sínar að rekja til þess að Samtök verslunar og þjónustu, sem Ferskar kjötvörur ehf. eru aðilar að, sendu erindi til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) árið 2011 þar sem kvartað var undan banninu og töldu samtökin það ekki samræmast ákvæðum EES-samningsins. Eftir rannsókn á málinu komst ESA að sömu niðurstöðu að núgildandi löggjöf á Íslandi vegna innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstætt EES-samningnum. Tók ESA því að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir. Í kjölfarið höfðuðu Ferskar kjötvörur ehf. mál gegn íslenska ríkinu vegna bannsins og er það mál til umfjöllunar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Er öflun ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum liður í þeim málarekstri.

Ætla verður að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins liggi fyrir á næstu tveimur til þremur mánuðum og í kjölfarið mun héraðsdómur taka málið til afgreiðslu.

Aftur í fréttasafn