Fréttir

LEX mun birta hér öðru hverju fréttir af málefnum stofunnar og starfsmönnum hennar, auk auglýsinga um útgáfu efnis frá LEX

Fréttir

ÚTGÁFA

LEX lögmannsstofa leggur áherslu á að viðskiptavinir njóti þjónustu sérhæfðra starfsmanna eftir því sem viðkomandi verkefni kallar á. Slíkt tryggir ekki aðeins fyrsta flokks ráðgjöf handa við­skiptavinum okkar heldur tryggir það einnig að þjónustan sé eins hagkvæm og kostur er. Þá starfa reyndir mál­flytjendur fyrir dómsstólum landsins á öllum fagsviðum LEX.

Hugleiðing um samræmi frumvarps til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða við stjórnarskrá og alþjóðaskuldbindingar

31. maí, 2012

Þann 29. maí sl. birtist grein í Fréttablaðinu eftir Ásgerði Ragnarsdóttur og Huldu Árnadóttur héraðsdómslögmenn á LEX um samræmi frumvarps til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða við stjórnarskrá og alþjóðaskuldbindingar. Í greininni er gagnrýnt hversu rýr umfjöllun er um samræmi frumvarpsins við stjórnarskrána og bent á að umfjöllunin sé að ákveðnu marki villandi.

Vakin er sérstök athygli á því að í frumvarpinu er hvorki minnst á Mannréttindasáttmála Evrópu, sem veitt hefur verið lagagildi, og þau sjónarmið sem fram hafa komið í dómum Mannréttindadómstólsins um vernd atvinnuréttinda.  Aftur á móti er áhersla lögð á álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í svokölluðu Fagramúlamáli.

Í greininni er bent er á að ákveðins misskilnings hafi gætt um eðli og inntak þessa álits en nefndin nýtur ekki stöðu dómstóls og álit hennar eru ekki bindandi að þjóðarétti. Fyrrgreint álit er auk þess í andstöðu við dóm Hæstaréttar í svokölluðu Vatneyrarmáli. Hins vegar hefur Mannréttindasáttmálanum verið veitt lagagildi, sbr. lög nr. 62/1994, og Mannréttindadómstólnum verið falið það hlutverk að kveða upp dóma um brot gegn ákvæðum sáttmálans, sem eru bindandi að þjóðarétti. Þá hafi Mannréttindadómstóllinn talið atvinnuréttindi njóta verndar sáttmálans og lagt áherslu á þýðingu lögmætra væntinga sem eru til þess fallnar að takmarka möguleika á skerðingu atvinnuréttinda með lögum án þess að bótaskylda stofnist.

Telja höfundar greinarinnar umhugsunarvert að í frumvarpinu sé vísað til álits nefndar sem starfar á grundvelli ólögfests þjóðréttarsamnings en alfarið látið hjá líða að fjalla um þá vernd sem atvinnuréttindi njóta samkvæmt Mannréttindasáttmálanum og þeirra skyldna sem hvíla á íslenska ríkinu í því sambandi.

Aftur í fréttasafn