Fróðleikur
Lögmenn LEX eiga í nánu samstarfi við viðskiptavini, hafa frumkvæði í lausnum og ráðgjöf, faglegri nálgun verkefna og stöðugri umbótahugsun.
LEX hefur um langt skeið veitt fyrirtækjum, opinberum stofnunum og einstaklingum víðtæka þjónustu á öllum sviðum og eru lögmenn LEX á meðal fremstu sérfræðinga landsins á sviði persónuverndar, hugverka-, fjarskipta- og upplýsingatækniréttar og veita alhliða þjónustu á þessum réttarsviðum.
Þá býður LEX einnig upp á sérhæfða þjónustu til fyrirtækja sem fást við þróun hugbúnaðar og gervigreindar, gerð gagnagrunna eða notast við tæknilausnir í störfum sínum og veita auk þess þjónustu á sviði rafrænna viðskipta og fjártækni
Ólöglegar eftirlíkingar
4. febrúar, 2020Samtal við Erlu S. Árnadóttur í Viðskiptablaðinu, júní 2007
“Ólöglegum eftirlíkingum af húsgögnum hefur fjölgað áberandi mikið á undanförnum árum,” segir Erla S. Árnadóttir, lögmaður hjá Lex og sérfræðingur í hugverkarétti, í samtali við Viðskiptablaðið. “Þær virðast að stórum hluta vera framleiddar í Kína og koma hingað til lands eftir ýmsum farvegum,” segir hún.
Í fyrra samþykkti Alþingi lög um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum, sem tóku gildi 1. júlí. Samkvæmt lögunum er hægt að fá atbeina sýslumanna til að afla sönnunargagna vegna ætlaðra brota á höfundarétti, hönnunarrétti, vörumerkjarétti, félagamerkjarétti, einkaleyfarétti, rétti samkvæmt lögum um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum og yrkisrétti.
Erla segir að úrræði laganna svipi til lögbanns og að í ákveðnum tilvikum sé hægt að framkvæma aðgerð samkvæmt þeim án þess að sá sem hún beinist gegn viti af henni fyrirfram. “Það verður þó að vera vel rökstuddur grunur og afmarkað að hverju er verið að leita. Ef grunurinn reynist síðan á rökum reistur þarf að höfða mál innan tiltekins tíma þar sem byggt er á sönnunargögnunum,” segir hún.
Að sögn Erlu er þó ekki endilega nauðsynlegt að beita hinum nýju lagaúrræðum varðandi öflun sönnunargagna í málum varðandi húsgögn. “Þau eru seld í húsgagnabúðum og það liggur fyrir hvers konar vörur er verið að selja. En hins vegar kemur fyrir að seljendur neyta til dæmis að gefa upplýsingar um stærð lagers og í slíkum tilvikum er hægt að beita lögunum,” segir hún, og bætir við að lagaákvæðin varðandi öflun sönnunargagna séu mjög gagnleg í hugbúnaðarmálum, þar sem oft þarf að komast að því hvað liggur til grundvallar hugbúnaði sem hannaður hefur verið.
Þau lög sem reynir á varðandi eftirlíkingar eru lög um hönnun, höfundalög og lög um vörumerki, auk þess sem til álita geta komið lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.
Þess ber einnig að geta að í tollalögum er að finna heimild fyrir tollayfirvöld að uppfylltum tilteknum skilyrðum að fresta tollafgreiðslu ef sýnt þykir að innflutningur vöru brjóti gegn hugverkaréttindum.
Í fyrra féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness þar sem viðurkennt var að Byko hafi verið óheimilt að flytja inn, bjóða til sölu, selja, flytja út eða ráðstafa með öðrum hætti svo að fari í bága við rétt stefnanda, eintökum af barnastólnum ALPHA, sem taldist eftirlíking af barnastólnum Tripp-Trapp, sem framleiddur er af Stokke AS og hefur verið seldur hér um langt skeið í nokkrum verslunum. Byko var gert skylt að ónýta óseldar birgðir af ALPHA stólum og skaðabætur voru dæmdar.
Í þessu sambandi má einnig nefna mál vegna eftirlíkingar á barkollinum Bombo sem seldur er í EPAL, þar sem viðurkennt var að viðkomandi verslun væri óheimilt að selja eftirlíkinguna, bæri skylda til greiðslu skaðabóta og skylda að afhenda óseldar birgðir.
Aðspurð um hvað sé til ráða til þess að sporna við eftirlíkingum segir Erla mikilvægt að breyta hugarfari fólks. “Mörgum finnst í lagi að kaupa eftirlíkingar. Því miður held ég að fæstir hugsi út í að búið er fjárfesta ríkulega í hönnun vara og því mikið í húfi. Framleiðendur eftirlíkinga notfæra sér með ólögmætum hætti það framlag sem hönnuður og framleiðandi hönnunarvörunnar hafa innt af hendi. Einnig er mikilvægt að auk þess að dæma skaðabætur taki dómstólar tillit til kostnaðar við að fara í þessar aðgerðir, því að oft er sá kostnaður óhjákvæmilega hærri en þær skaðabætur sem eru greiddar,” segir Erla.