Orðrómar á fjármálamörkuðum

Á Innherja, nýjum viðskiptamiðli innan Vísis, birtist í dag grein eftir Kristin Inga Jónsson lögfræðing og fulltrúa á LEX þar sem hann fjallar um orðróma á fjármálamörkuðum, áhrif þeirra á eðlilega virkni markaða og reglur í nýlegum lögum nr. 60/2021 um aðgerðir gegn markaðssvikum sem ætlað er að sporna gegn truflandi áhrifum óstaðfestra upplýsinga.

Skaðabætur fyrir höfundaréttarbrot gegn verkum úr Rafskinnu

Þann 12. nóvember sl. var kveðinn upp í Landsrétti dómur í máli sem flutt var af Erlu S. Árnadóttur, lögmanni og eiganda á LEX.

Erfingjar Jóns Kristinssonar, myndlistarmanns, Jónda, höfðuðu málið á árinu 2015 á hendur aðstandendum Gunnars Bachmann, en hann rak á sínum tíma flettiauglýsingagrindina Rafskinnu, sem á árunum 1935 – 1957 var staðsett í verslunarglugga í Austurstræti í Reykjavík, og á hendur galleríi í Reykjavík. Með dómnum var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að stefndu væru skaðabótaskyldir gagnvart erfingjum Jónda, sem eru nú eigendur höfundaréttinda hans, vegna óheimillar nýtingar réttinda að fjölda myndverka er hann teiknaði til birtingar í auglýsingagrindinni. Hin óheimila nýting fór fram á árunum 2013 – 2014 og fólst m.a. í opinberri sýningu myndverkanna, gerð boðskorts, og gerð og sölu veggspjalda, póstkorta, límmiða og auglýsinga sem birtar voru á biðstöðvum Strætó. Alls voru framin 19 brot gegn 168 verkum.

Heildarfjárhæð dæmdra skaðabóta ásamt vöxtum og málskostnaði nam ríflega 12 milljónum króna og mun þar sennilega um að ræða hæstu skaðabætur vegna brots á höfundarétti sem dæmdar eru í einu máli af íslenskum dómstól.

Gagnagíslataka og ábyrgð stjórnenda

Lára Herborg Ólafsdóttir

Lára Herborg Ólafsdóttir eigandi og lögmaður á LEX fjallar um gagnagíslatöku og ábyrgð stjórnenda í grein í Viðskiptamogganum þann 3. nóvember sl. Í núverandi viðskiptaumhverfi, þar sem öryggisógnum fer fjölgandi, verður að telja eðlilegt að stjórnendur fyrirtækja geri markvissar ráðstafanir til að tryggja öryggi þeirra upplýsinga sem félagið hefur undir höndum. Hafi engar slíkar ráðstafanir verðir gerðar af hálfu stjórnar má leiða að því líkur að stjórnarmenn geti eftir atvikum borið ábyrgð á tjóni af völdum netárása.

Sjálfbærniupplýsingagjöf og strandaðar eignir

Eva Margrét ÆgisdóttirEva Margét Ævarsdóttir, sem leiðir ráðgjöf í sjálfbærni (ESG – e. environment, social, governance) á LEX, skrifaði grein, sem birtist á Vísi.is, um aukna eftirspurn fjárfesta og lánveitenda eftir betri sjálfbærniupplýsingum um áherslur og áhrif fyrirtækja í starfsemi þeirra. Í greininni tekur hún saman helstu áherslur í nýjum reglum Evrópusambandsins sem væntanlegar eru og er ætlað að bæta upplýsingagjöf fyrirtækja á frammistöðu þeirra hvað varðar sjálfbærni og með tímanum gera sambærilegar kröfur til sjálfbærniupplýsingagjafar fyrirtækja og fjárhagslegrar upplýsingagjafar þeirra.

 

Mikilvægi hugverkaréttinda fyrir grænar tæknilausnir og sjálfbærni.

María Kristjánsdóttir

Í nýjasta þætti Talk Innovation – hlaðvarpi evrópsku einkaleyfastofunnar (European Patent Office) sem ber heitið „Rock CO2, roll back climate change“ ræðir María Kristjánsdóttir, lögmaður á LEX við Berg Sigfússon sem er yfir CO2 föngun og niðurdælingu hjá Carbfix um kolefnisföngun og mikilvægi hugverkaréttinda fyrir grænar tæknilausnir og sjálfbærni.

Þátturinn er unnin í samvinnu við Hugverkastofu í tilefni af 30 ára afmælisráðstefnu stofnunarinnar sem fram fer þann 4. nóvember næstkomandi.

LEX veitir Treble Technologies ráðgjöf við fjármögnun

Íslenska sprotafyrirtækið Treble Technologies hefur lokið rúmlega 200 milljóna króna fjármögnun.
LEX, með þau Birgi Má Björnsson og Fanneyju Frímannsdóttur í fararbroddi veitti félaginu lögfræðiráðgjöf við fjármögnunina.

Treble Technologies sérhæfir sig í hugbúnaði á sviði hljóðhermunar og hefur starfar frá síðari hluta ársins 2020. Fyrirtækið býður upp á hugbúnaðarlausn fyrir byggingageirann sem gerir hönnuðum og eigendum bygginga færi á að móta hljóðheim og hljóðvist hönnunar sinnar. Þessi lausn auðveldar þeim að taka upplýstar ákvarðanir um efnisval, form og fleira á grundvelli nákvæmrar hermunar og stafrænnar upplifunar.

Fyrsta umsóknin um skráningu litamerkis

G.H. Sigurgeirsson Intellectual Property., dótturfyrirtæki LEX hefur lagt inn fyrstu umsóknina um skráningu litamerkis til Hugverkastofu fyrir hönd fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax hf.

Töluverðar breytingar urðu á íslenskum vörumerkjalögum þann 1. september 2020 og opnaðist þá meðal annars fyrir þann möguleika að skrá litamerki í vörumerkjaskrá.

Liturinn sem Arnarlax óskar eftir að fá skráðan sem vörumerki er með eftirfarandi litakóða.
Pantone 630 c
CMYK 65-10-25-0
RGB 114-176-189
HEX 72B0BD