Í Viðskipta Mogganum í dag birtist grein eftir Láru Herborgu Ólafsdóttur, lögmann og eiganda á LEX þar sem hún fjallar um svokallaðar sýndareignir (e. Crypto assets) og fyrirhugað samevrópskt regluverk um slíkar sýndareignir (e. MiCA), sem ætlað er að setja og samræma heildarreglur um sýndareignir innan EES-svæðisins. Fyrirhugað regluverk kemur til með að setja ýmsar skyldur á útgefendur og þjónustuveitendur á sviði sýndareigna. Áætlað er að MiCA-reglugerðin taki gildi í lok árs en komi til framkvæmda 12 -18 mánuðum síðar.
Lagaumhverfi sjálfbærni í mótun
Eva Margrét Ævarsdóttir lögmaður, sem leiðir ráðgjöf í sjálfbærni á LEX fjallar í nýjasta tölublaði Lögmannablaðsins um nokkra þætti sjálfbærni, m.a. um umgjörðina um sjálfbærnivinnu og samræmingu staðla á því sviði, græna sáttmála ESB og fyrirhugaðar lagabreytingar í tengslum við hann sem munu verða innleiddar hér á landi, hættuna á grænþvotti og aukna áherslu eftirlitsaðila með þeirri hættu og áhrif þessara breytinga á starfsumhverfi lögfræðinga í nánustu framtíð.
Hætta á grænþvotti víða í fjárfestingarkeðjunni
Eva Margrét Ævarsdóttir sem leiðir ráðgjöf í sjálfbærni (ESG – e. Environmental, social, governance) á LEX skrifaði grein í Innherja, viðskiptamiðil Vísis, um ábyrgar fjárfestingar og áhættur sem fylgja slíkum fjárfestingum, ekki síst hættuna á grænþvotti. Áhugi fjárfesta á því að beina fjármagni sínu í farveg sem byggir á sjálfbærniþáttum hefur vaxið gríðarlega á síðustu misserum. Aðhald og eftirlit vegna ætlaðs grænþvottar er að aukast mikið á flestum markaðssvæðum og nefnir hún nýleg dæmi.
UTmessan 2022
UTmessan 2022 verður haldin á Grand hótel miðvikudaginn 25. maí næstkomandi. Lára Herborg Ólafsdóttir lögmaður og eigandi á LEX mun kl. 13.30 þann dag flytja fyrirlesturinn „Hvernig temjum við dreka? Fyrirhugað regluverk Evrópusambandsins um gervigreind“
Flestir kannast við vélmennið HAL 9000 úr mynd Stanley Kubrick, 2001: A Space Odyssey, sem eftirminnilega neitaði að framfylgja mannlegri skipun með orðunum: „I´m sorry Dave – I´m afraid I can´t do that“. Síðan myndin kom út árið 1968 hefur talsvert vatn runnið til sjávar og mikið verið rætt um tækifærin sem fylgja aukinni notkun gervigreindar en jafnframt áhætturnar, m.a. vegna hættu á hlutdrægni og mismunun vegna gagnanna sem stuðst er við.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti í vor drög að nýrri reglugerð um notkun á gervigreind innan Evrópusambandsins. Markmið regluverksins er m.a. að hafa áhrif á þær aðferðir sem notast er við þegar fyrirtæki þróa, markaðssetja og nota stafræna tækni í hinum ýmsu formum. Farið verður yfir fyrirhugaðar reglur og hvaða áhrif þær koma til með að hafa á fyrirtæki sem þróa gervigreindarlausnir.
LEX tekur jafnframt þátt á sýningarsvæði UTmessunnar, þar sem okkar fremstu lögfræðingar í hugaverka- og tæknirétti munu taka vel á móti gestum.
Notkun á vefkökum
Morgunblaðið birti í dag grein eftir Láru Herborgu Ólafsdóttur, lögmann og eiganda á LEX þar sem hún fjallar um lagaumgjörðina í kring um vefkökur á vefsvæðum, þá sér í lagi með tilliti til persónuverndar. Nýverið komust austurrísk og frönsk persónuverndaryfirvöld að þeirri niðurstöðu að notkun á Google analytics bryti í bága við persónuverndarreglugerðina.
LEX á Nýsköpunarvikunni
Í gær var nýsköpunarvikan, Iceland Innovation week, sett í Grósku. Nýsköpunarvikan er hátíð þar sem fyrirtæki og frumkvöðlar standa fyrir nýsköpunartengdum viðburðum. Í gær gafst kostur á að hlýða á frásagnir af starfsemi ýmissa nýsköpunarfyrirtækja og ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar kynnti hið nýja ráðuneyti sitt. LEX styður heilshugar við nýsköpun og var með pop-up lögmannsstofu við opnunina.
Hvenær verða upplýsingar að innherjaupplýsingum?
Kristinn Ingi Jónsson, lögfræðingur og fulltrúi á LEX, skrifaði nýverið grein í Innherja, viðskiptamiðil Vísis, um það vandasama viðfangsefni útgefenda skráðra fjármálagerninga að meta hvenær upplýsingar eru „nægjanlega tilgreindar“ til þess að teljast til innherjaupplýsinga. Í greininni er meðal annars varpað ljósi á nýlegan dóm Hæstaréttar Noregs um álitaefnið og hann borinn saman við dómaframkvæmd Evrópudómstólsins.
LEX enn á ný metið í hæsta gæðaflokki hjá Legal 500
Matsfyrirtækið Legal 500 hefur birt nýjasta mat sitt á íslenska lögfræðimarkaðnum. LEX lögmannsstofa, ein af þeim íslensku lögmannstofum sem bjóða upp á fulla þjónustu, hefur enn og aftur verið flokkuð í hæsta gæðaflokki (Tier 1) í öllum þeim flokkum sem metnir eru hjá Legal 500. Þeir flokkar sem Legal500 metur eru:
- Banking, finance and capital markets
- Commercial, corporate and M&A
- Dispute Resolution
- EEA and competition
- Employment
- Maritime and transport
- Real estate and construction
- Restructuring and insolvency
- TMT and IP
Gamalkunnug andlit á LEX eru, eins og undanfarin ár, nefnd sem „leading individuals“ eða í „Hall of fame“ á sínu sviði. Að auki hafa mörg ný andlit frá LEX bæst við í matinu sem “leading individuals”, “next generation partners” og “rising stars” og staðfestir það dýptina í þjónustuframboði LEX.
LEX er ein af fremstu lögmannsstofum landsins, skipuð um 40 lögmönnum sem veita viðskiptavinum alhliða þjónustu á sviði fjármála- og félagaréttar auk flestra annarra sviða íslensks réttar.
Í 33 ár hefur The Legal 500 greint lögmannsstofur um allan heim, með ítarlegri rannsóknaráætlun sem er endurskoðuð og uppfærð árlega til að koma með nýjustu sýn á alþjóðlegan lögfræðimarkað.
Sjálfbær rekstur
Sérblaðið Sjálfbær rekstur fylgdi með Fréttablaðinu í dag. Í blaðinu er rætt við Evu Margréti Ævarsdóttur lögmann, sem leiðir þjónustu LEX á sviði sjálfbærni og UFS-ráðgjafar. Hún talar um áhrifin af innrás Rússa í Úkraínu og hvernig margar af afleiðingum átakanna í Úkraínu geti flokkast sem sjálfbærniáhætta sem muni líklega hafa áhrif á sjálfbærnivinnu fyrirtækja og fjárfesta. Hún bendir á að mikilvægt sé að þekkja og greina sjálfbærniáhættu, þar með talið í birgðakeðjum. Eva segir starfsfólk LEX hafa fundið fyrir aukinni eftirspurn eftir sjálfbærniráðgjöf en LEX hafi byggt upp reynslu og þekkingu í innleiðingu sjálfbærnimarkmiða eftir viðurkenndum aðferðum sem notuð er í ráðgjöf til viðskiptavina.

María Kristjánsdóttir nýr meðeigandi G.H. Sigurgeirsson
María Kristjánsdóttir hefur undirritað samning við LEX um að gerast meðeigandi LEX að G.H. Sigurgeirsson ehf. LEX keypti G.H. Sigurgeirsson árið 2018 og frá þeim tíma hefur María spilað lykilhlutverk í rekstri félagsins sem hefur gengið mjög vel. Frá upphafi árs 2021 hefur María verið framkvæmdastjóri félagsins.
G.H. Sigurgeirsson er dótturfélag LEX, sem veitir alhliða ráðgjöf og þjónustu á sviði hugverkaréttar, einkum hvað varðar vörumerki, hönnun og einkaleyfi.
María hefur starfað á LEX frá árinu 2008 og hefur frá þeim tíma verið hluti af hugverkateymi LEX þar sem hún hefur einkum einbeitt sér að vörumerkjarétti, auk þess sem hún hefur sinnt öðrum réttarsviðum eins og samkeppnisrétti, persónuvernd o.fl.
Hún útskrifaðist frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007 og lauk LL.M gráðu frá Fordham University í New York árið 2008.
Recent Comments