LEX veðgæsluaðili í skuldabréfaútboði

Þann 11. október sl. lauk skuldabréfaútboði hjá Eik fasteignafélagi. Útgáfan, sem var um 11,6 ma.kr., er sú stærsta á Íslandi frá árinu 2008 og veitti LEX ráðgjöf við útboðið. LEX hefur jafnframt tekið að sér hlutverk veðgæsluaðila (e. Security Agent) í útgáfunni. Um er að ræða nýja þjónustu hjá LEX og er ekki vitað til þess að aðilar utan bankakerfisins á Íslandi hafi tekið þetta að sér áður. Hlutverk veðgæsluaðila felst í því að gæta að hagsmunum skuldabréfaeigenda og hafa eftirlit með því fasteignasafni sem sett var til tryggingar skuldabréfaútgáfunni. LEX mun þannig hafa eftirlit með eignatilfærslum, bankareikningum og sjá til þess að önnur skilyrði skuldabréfaflokksins séu uppfyllt. Þá mun LEX halda fundi skuldabréfaeigenda eftir þörfum t.d. vegna skilmálabreytinga og sjá um innheimtu skuldabréfanna komi til vanefnda.

Ný heimasíða LEX

Eins og sjá má hefur ný heimasíða LEX farið í loftið.  Tilgangur heimasíðunnar er fyrst og fremst sá að gera kaupendum að lögfræðiþjónustu betur kleift að kynna sér starfsemi lögmannstofunnar.  Við kaup á lögfræðiþjónustu er að mörgu að hyggja enda hafa kröfur sem gerðar eru til lögmanna í dag breyst um margt og liðnir eru þeir tímar þegar að einn slyngur lögmaður gat sinnt öllum þörfum viðskiptavina sinna.
Nú á dögum er sérhæfing innan lögfræðinnar, eins og reyndar á við um flesta sérfræðiþjónustu í þjóðfélaginu í dag, orðin meiri og til þess að geta veitt fyrirtækjum og einstaklingum afburða þjónustu er krafist sérhæfingar á öllum sviðum lögfræðinnar.  Í takt við þær kröfur er LEX afsprengi samruna þriggja lögmannstofa þar sem saman koma þrautreyndir sérfræðingar á nánast öllum sviðum lögfræðinnar.  Á nýrri heimasíðu kynnum við þau fjölmörgu starfssvið sem til staðar eru á LEX auk þess sem við kynnum þá eigendur lögmannstofunnar er veita sérfræði þjónustu á viðkomandi sviðum.  Með þessum hætti er viðskiptavinum gert auðveldara með að velja sér lögmann.
Það er von okkar sem störfum á LEX að með nýrri heimasíðu þjónustum við okkar viðskiptavini enn betur en áður og að hún geri þeim sem þurfa á þjónustu lögmanna að halda lífið auðveldara.

Vörumerkjavöktun

Viðskiptavinir LEX eru margir mjög meðvitaðir um mikilvægi þess að tryggja að vörumerki þeirra og önnur auðkenni séu vel vernduð og varin. LEX sinnir skráningu vörumerkja fyrir fjölmarga viðskiptavini sína, bæði hérlendis og erlendis, og veitir alhliða þjónustu er varðar vörumerkjasöfn þeirra.
Á meðal þeirrar þjónustu sem LEX býður upp á í tengslum við þetta er sérstök vörumerkjavöktun en með henni er fylgst með skráningum vörumerkja um allan heim. Í vöktuninni felst að í hvert skipti sem sótt er um skráningu á vörumerki sem gæti talist valda ruglingshættu við það merki sem vaktað er, þá fást upplýsingar um þá umsókn ásamt upplýsingum um andmælafresti og annað sem þarf til að bregðast við slíkum umsóknum. LEX tekur á móti slíkum upplýsingum fyrir hönd viðskiptavina sinna og aðstoðar þá við að greina þörfina á því að bregðast við. Í þeim tilfellum þar sem ástæða telst til aðgerða, veitir LEX viðskiptavinum sínum aðstoð og ráðgjöf við þá framkvæmd.
Sífellt fleiri viðskiptavinir LEX eru farnir að nýta sér þessa þjónustu og hvetjum við þá aðila sem hagsmuni gætu haft af slíkri vörumerkjavöktun að leita nánari upplýsinga hjá okkur um þessi mál. Er þetta einkum mikilvægt fyrir þá aðila sem með einhverjum hætti markaðssetja og selja vörur sínar og þjónustu erlendis, eða til erlendra aðila. Fyrirspurnum um þessi mál má beina til Ragnheiðar M. Ólafsdóttur, hrl. (ragnheidur@lex.is), Huldu Árnadóttur, hdl. (hulda@lex.is) eða á netfangið iplaw@lex.is.

Hugleiðing um samræmi frumvarps til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða við stjórnarskrá og alþjóðaskuldbindingar

Þann 29. maí sl. birtist grein í Fréttablaðinu eftir Ásgerði Ragnarsdóttur og Huldu Árnadóttur héraðsdómslögmenn á LEX um samræmi frumvarps til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða við stjórnarskrá og alþjóðaskuldbindingar. Í greininni er gagnrýnt hversu rýr umfjöllun er um samræmi frumvarpsins við stjórnarskrána og bent á að umfjöllunin sé að ákveðnu marki villandi.

Vakin er sérstök athygli á því að í frumvarpinu er hvorki minnst á Mannréttindasáttmála Evrópu, sem veitt hefur verið lagagildi, og þau sjónarmið sem fram hafa komið í dómum Mannréttindadómstólsins um vernd atvinnuréttinda.  Aftur á móti er áhersla lögð á álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í svokölluðu Fagramúlamáli.

Í greininni er bent er á að ákveðins misskilnings hafi gætt um eðli og inntak þessa álits en nefndin nýtur ekki stöðu dómstóls og álit hennar eru ekki bindandi að þjóðarétti. Fyrrgreint álit er auk þess í andstöðu við dóm Hæstaréttar í svokölluðu Vatneyrarmáli. Hins vegar hefur Mannréttindasáttmálanum verið veitt lagagildi, sbr. lög nr. 62/1994, og Mannréttindadómstólnum verið falið það hlutverk að kveða upp dóma um brot gegn ákvæðum sáttmálans, sem eru bindandi að þjóðarétti. Þá hafi Mannréttindadómstóllinn talið atvinnuréttindi njóta verndar sáttmálans og lagt áherslu á þýðingu lögmætra væntinga sem eru til þess fallnar að takmarka möguleika á skerðingu atvinnuréttinda með lögum án þess að bótaskylda stofnist.

Telja höfundar greinarinnar umhugsunarvert að í frumvarpinu sé vísað til álits nefndar sem starfar á grundvelli ólögfests þjóðréttarsamnings en alfarið látið hjá líða að fjalla um þá vernd sem atvinnuréttindi njóta samkvæmt Mannréttindasáttmálanum og þeirra skyldna sem hvíla á íslenska ríkinu í því sambandi.