Heiðrún Lind Marteinsdóttir fjallar um heimildir Samkeppniseftirlitsins

Þann 26. apríl s.l. fór fram sameiginlegur fundur Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um inngrip stjórnvalda á mörkuðum.

Á meðal frummælanda var Heiðrún Lind Marteinsdóttir hdl. og eigandi á LEX sem fjallaði  heimildir Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar á mörkuðum án þess að fyrirtæki hafi gerst brotleg við bannákvæði samkeppnislaga. Heiðrún bar saman heimild eftirlitsins við heimildir samkeppnisyfirvalda nokkurra annarra ríkja. Þegar nefnd heimild Samkeppniseftirlitsins var leidd í lög vék löggjafinn m.a. að því að sambærileg ákvæði mætti finna í löggjöf Noregs, Bretlands og Bandaríkjanna. Heiðrún benti hins vegar á að við nánari skoðun væri ljóst að löggjöf þessara ríkja væri ekki sambærileg óljósum og rúmum heimildum íslenskra samkeppnisyfirvalda. Í erindi hennar kom einnig fram að  beiting hinnar íslensku heimildar þeirra gæti farið gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Aðrir frummælendur á fundinum voru Frosti Ólafsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Að loknum erindum fóru fram pallborðsumræður undir stjórn Hrundar Rúdolfsdóttur, forstjóra Veritas, þar sem Daði már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, og Ingunn Agnes Kro hdl., lögfræðingur Skeljungs, tóku þátt ásamt frummælendum.

EFTA-dómstóllinn dæmir Ferskum kjötvörum í vil

Í dag, 1. febrúar 2016, var kveðinn upp dómur EFTA-dómstólsins í máli Ferskra kjötvara gegn íslenska ríkinu.  Arnar Þór Stefánsson hrl. lögmaður á LEX flutti málið f.h. Ferskra kjötvara.

Málavextir eru þeir að í febrúar 2014 fluttu Ferskar kjötvörur 83 kg af ferskum nautalundum frá Hollandi til Íslands, með viðkomu í Danmörku. Innflutningsleyfið var veitt, meðal annars með því skilyrði að kjötið yrði geymt við að minnsta kosti -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu. Ferskar kjötvörur mótmæltu þessu skilyrði, án árangurs. Kjötinu var því fargað. Í málinu sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur krefjast Ferskar kjötvörur þess að íslenska ríkinu verði gert að endurgreiða þeim útgjöldin. Í tengslum við þann málarekstur ákvað héraðsdómur að beina nokkrum spurningum til EFTA-dómstólsins varðandi það hvort veiting innflutningsleyfa samkvæmt framangreindu kerfi fái samrýmst samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum).

Í niðurstöðum EFTA-dómstólsins kemur eftirfarandi fram:

Gildissvið EES-samningsins, eins og það er markað í 8. gr. hans, leiðir ekki til þess að EES-ríki hafi frjálsar hendur um setningu reglna um innflutning hrárrar kjötvöru, þar sem svigrúm þess getur takmarkast af ákvæðum sem tekin hafa verið upp í viðauka EES samningsins.

Það samrýmist ekki ákvæðum tilskipunar 89/662/EBE að ríki, sem aðild á að EES-samningnum, setji reglur, þar sem þess er krafist, að innflytjandi hrárrar kjötvöru sæki um sérstakt leyfi áður en varan er flutt inn, og áskilji að lagt sé fram vottorð um að kjötið hafi verið geymt frosið í tiltekinn tíma fyrir tollafgreiðslu.

Dóm EFTA-dómstólsins í heild sinni má finna á http://www.eftacourt.int/uploads/tx_nvcases/17_15_Judgment_IS.pdf

LEX talinn vera leiðandi aðili á sviði hugverkaréttar á Íslandi

The World Trademark Review 1000 (WTR 1000) hefur gefið út mat sitt vegna ársins 2016.  LEX er mjög stolt af því að samkvæmt þessari útgáfu eru tveir af eigendum LEX, þær Erla S. Árnadóttir og Hulda Árnadóttir, taldar vera meðal leiðandi sérfræðinga á þessu sviði.

Samkvæmt þessari útgáfu WTR 1000 er LEX lögmannstofa talin í hæsta gæðaflokki á Íslandi. LEX er önnur þeirra tveggja lögmannsstofa hér á landi sem veita fulla þjónustu á sviði hugverkaréttar og sem WTR 1000 mælir með.

Í fréttatilkynningu WTR 100 segir m.a.:
Útgáfa WTR 1000 2016 hefur leitt í ljós hverjir geti talist leiðandi sérfræðingar á sviði hugverkaréttar í heiminum. Ekki aðeins sýnir útgáfan dýpt þeirrar þekkingar sem eigendum hugverka stendur til boða í heiminum heldur er hún einnig einnig mikilvægt tæki fyrir þá við að finna og velja samstarfsaðila hvar sem er í heiminum.

Í kjölfar þeirrar velgengni sem WTR 1000 2015 naut, er þessi útgáfa fyrir árið 2016, sem er viðameiri en fyrri útgáfur, ætlað að festa enn frekar í sessi þessa megin heimild um hæfustu sérfræðinga á sviði hugverkaréttinda í heiminum. Í þessari útgáfu, sem tekur til yfir 80 ríkja auk sérstakra kafla um einstök fylki í Bandaríkjunum, eru greindir markaðir fyrir einstök ríki auk þess sem hún hefur að geyma umfjöllun um þær stofur og þá einstaklinga sem þykja leiðandi á sínu sviði.

Til þess að vera tekinn til umfjöllunar hjá WTR 1000 þurfa aðilar að fá góð ummæli frá aðilum á hugverkaréttindamarkaðnum. Rannsóknir stóðu yfir í meira en fjóra mánuði og áttu sér stað nálægt 1.500 viðtöl og símafundir við sérfræðinga í vörumerkjarétti víðsvegar um heiminn.

LEX rekur mál fyrir EFTA-dómstólnum um innflutning á fersku kjöti

Þriðjudaginn 2. desember sl. fór fram málflutningur í EFTA-dómstólnum í Lúxemborg vegna máls Ferskra kjötvara ehf. gegn íslenska ríkinu þar sem tekist er á um innflutningsbann á fersku kjöti til landsins. Héraðsdómur Reykjavíkur, þar sem málið er til umfjöllunar, hafði áður kveðið upp þann úrskurð að leita skyldi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu. LEX gætir hagsmuna Ferskra kjötvara ehf. í málinu og flutti Arnar Þór Stefánsson hrl. málið af þeirra hálfu fyrir EFTA-dómstólnum.

Málið á rætur sínar að rekja til þess að Samtök verslunar og þjónustu, sem Ferskar kjötvörur ehf. eru aðilar að, sendu erindi til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) árið 2011 þar sem kvartað var undan banninu og töldu samtökin það ekki samræmast ákvæðum EES-samningsins. Eftir rannsókn á málinu komst ESA að sömu niðurstöðu að núgildandi löggjöf á Íslandi vegna innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstætt EES-samningnum. Tók ESA því að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir. Í kjölfarið höfðuðu Ferskar kjötvörur ehf. mál gegn íslenska ríkinu vegna bannsins og er það mál til umfjöllunar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Er öflun ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum liður í þeim málarekstri.

Ætla verður að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins liggi fyrir á næstu tveimur til þremur mánuðum og í kjölfarið mun héraðsdómur taka málið til afgreiðslu.

Dómur Evrópudómstólsins um meginreglur um örugga höfn fyrir persónuupplýsingar (Safe Harbor)

Dómur Evrópudómstólsins um meginreglur um örugga höfn fyrir persónuupplýsingar (Safe Harbor)
Með dómi 6. október s.l. ógilti Evrópudómstóllinn ákvörðun Evrópusambandsins um meginreglur um örugga höfn fyrir persónuupplýsingar (Safe Harbor). Dómurinn hefur þýðingu fyrir alla vinnslu persónuupplýsinga þar sem vinnsluheimild er eingöngu studd við Safe Harbor meginreglurnar. Slíkar upplýsingar geta verið m.a. starfsmannaupplýsingar fyrirtækja í eigu bandarískra aðila.

Á árinu 1995 samþykkti Evrópusambandið tilskipun 95/46 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Meðal þess sem tilskipunin og lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga kveða á um er að persónuupplýsingar megi eingöngu flytja út fyrir svæði Evrópusambandsins og EES svæðisins ef viðtökuríkið veitir fullnægjandi vernd.
Á árinu 2000 tók Evrópusambandið ákvörðun um að aðilar í Bandaríkjunum er fylgja meginreglum, útgefnum af viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna, um örugga höfn fyrir friðhelgi einkalífsins (Safe Harbor Privacy Principles) teldust veita fullnægjandi vernd í þessum skilningi. Hér er um að ræða reglur er bandarískir aðilar geta að eigin frumkvæði ákveðið að fylgja og hafa þeir sjálfir eftirlit með framkvæmd þeirra (e. self regulation). Á grundvelli þessarar ákvörðunar hafa aðilar í Evrópusambandinu og á EES svæðinu haft heimild til að flytja persónuupplýsingar til aðila í Bandaríkjunum er framfylgja meginreglunum um örugga höfn og hvað Ísland varðar er heimild til þessa að finna í auglýsingu Persónuverndar nr. 228/2010.

Málið fyrir dómstóli Evrópusambandsins fjallaði um kvörtun austurrísks ríkisborgara sem kvartaði til írsku persónuverndarstofnunarinnar. Kvörtunin byggir á því að vegna uppljóstrana Edwards Snowden á árinu 2013 um athafnir Bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar (NSA), veiti löggjöf og framkvæmd hennar í Bandaríkjunum ekki fullnægjandi vernd fyrir persónuupplýsingar er hann sem notandi Facebook hafi heimilað írsku dótturfélagi samskiptamiðilsins að vista í Bandaríkjunum. Dómstóllinn hefur nú kveðið upp dóm er ógildir fyrrgreinda ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Dómurinn hefur þá þýðingu hér á landi eins og annars staðar í Evrópu að viðhlítandi lagaheimildir skortir hjá aðilum, sem hafa eingöngu notast við Safe Harbour reglurnar til flutnings persónuupplýsinga af hálfu ábyrgðaraðila persónuupplýsinga til aðila í Bandaríkjunum. Þetta á meðal annars við um þann flutning er felst í nýtingu svokallaðra skýjaþjónusta þar sem ekki er tryggt að vinnslan eigi sér eingöngu stað innan Evrópusambandsins og þeirra tilteknu ríkja er auglýsing Persónuverndar nr. 228/2010 lýsir sem ríki er veiti fullnægjandi vernd. Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því að undir vinnslu persónuupplýsinga falla allar aðgerðir þar sem unnið er með persónuupplýsingar. Slíkar aðgerðir geta falist í vistun gagna en geta einnig tekið til þjónustu sem veitt er í tengslum við vistun og varðveislu gagna. Þannig er líklegt að í framkvæmd sé málum þannig háttað að fyrirtæki er tekur að sér vistun og varðveislu gagna á netþjónum innan Evrópusambandsins eða EES svæðisins leiti til aðila utan þess svæðis til að sinna slíkri þjónustu. Vert er að benda á að upplýsingar sem skráðar eru um starfsmenn, svo sem upplýsingar um veikindi, upplýsingar úr starfsmannaviðtölum, o.fl. falla undir persónuupplýsingar en slíkar upplýsingar eru varðveittar í flestum fyrirtækjum, oft í rafrænu formi. Líklegt er að slíkar upplýsingar sem varðveittar eru hjá íslenskum félögum í eigu bandarískra aðila séu fluttar til Bandaríkjanna í þeim skilningi sem hér skiptir máli.

Við munum fylgjast vel með framvindu þessa máls. Samstarfsvettvangur persónuverndarstofnana Evrópusambandsins (Article 29 Working Party) hefur þegar gefið út álit um hvernig beri að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Í því kemur fram að hugsanlegt sé að viðræður um nýtt Safe Harbor samkomulag gætu stuðlað að lausn í málinu. Þangað til það gerist verði unnt að styðja heimildir til flutnings gagna við samningsfyrirmyndir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið út (EU Standard Contractual Clauses) eða við svokallaðar bindandi reglur er alþjóðleg fyrirtæki setja sér (Binding Corporate Rules). Í álitinu kemur einnig fram að hafi ekki verið fundin lausn í málinu fyrir lok janúarmánaðar 2016 sé rétt að persónuverndarstofnanir aðildarríkjanna grípi við viðeigandi aðgerða.

Karl Axelsson skipaður dómari við Hæstarétt Íslands

Karl Axelsson, hæstaréttarlögmaður á LEX og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, hefur verið skipaður dómari við Hæstarétt Íslands. Karl er einn af reynslumestu lögmönnum LEX og í hópi virtustu lögmanna landsins.

Karl hefur sérhæft sig í eignar-, fasteigna- og auðlindarétti og hefur kennt laganemum eignarrétt við Háskóla Íslands síðastliðin 23 ár. Hann hefur flutt fjölda dómsmála, þar af mörg prófmál, fyrir Hæstarétti frá því hann hlaut málflutningsréttindi fyrir réttinum árið 1997. Þá hefur hann sinnt verjendastörfum í ýmsum erfiðum sakamálum. Karl var settur hæstaréttardómari frá 16. október 2014 til 30. júní 2015.

Karl hefur verið eftirsóttur ráðgjafi og sinnt bæði einstaklingum, félagasamtökum og hinu opinbera í störfum sínum hjá LEX. Hann hefur setið í og leitt starf fjölmargra stjórnskipaðra nefnda, m.a. á sviði stefnumörkunar í auðlinda- og orkumálum og um starfsumhverfi fjölmiðla. Einnig hefur hann komið að gerð fjölmargra lagafrumvarpa á sínum sérsviðum, samið greinar um lögfræðileg málefni og flutt fjölda fyrirlestra, einkum á sviði eignarréttar.

Karl hefur tekist á hendur mörg mikilvæg lögfræðileg verkefni á síðustu árum; hann gætti hagsmuna Tryggingasjóðs innstæðueigenda vegna kröfugerðar hollenska seðlabankans og breska innistæðusjóðsins. Eitt umfangsmesta verkefni hans fyrir stjórnvöld var svo umsjón með úrlausn deilna um þjóðlendur á hálendi Íslands.

Karl er kvæntur Margréti Reynisdóttur og á með henni tvær dætur. Í tómstundum sinnir Karl skógrækt, stangveiði og sinnir málefnum Knattspyrnufélagsins Vals þar sem hann hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa.

Örn Gunnarsson, faglegur framkvæmdastjóri LEX lögmannsstofu: „Lögmenn hafa lengi bent á mikilvægi þess að fleiri dómarar í Hæstarétti búi yfir reynslu af lögmennsku. Það er því í senn ánægjulegt fyrir lögmannastéttina og þessa lögmannsstofu, sem Karl hefur tekið þátt í að byggja upp á undanförnum áratugum, að honum hlotnist sú mikla viðurkenning starfa sinna sem varanleg skipun hæstaréttardómara er. Samstarfsfólk hans hér hjá LEX óskar honum innilega til hamingju með embættið og veit að hann mun sinna starfi sínu í þágu lands og þjóðar af trúmennsku og einurð.“

Karl Axelsson, fráfarandi meðeigandi LEX lögmannsstofu: „Ég kveð samstarfsfólk mitt á LEX með söknuði en hlakka um leið mjög til þess verkefnis sem bíður mín. Hafandi gert lögin að ævistarfi þá eru fá viðfangsefni jafn göfug og að sinna störfum fyrir æðsta dómstól lýðveldisins. Ég mun leggja mig allan fram um að vera verðugur þess mikla trausts sem mér er sýnt með skipan í embætti hæstaréttardómara.“

LEX er Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2015

Þann 7 maí s.l. birti VR niðurstöður vinnumarkaðskönnunar.  Fyrirtækin í tíu efstu sætum í hverjum flokki eru sannarlega til fyrirmyndar og telur VR ástæðu til að vekja sérstaka athygli á frammistöðu þeirra.  LEX var á meðal 10 efstu í flokknum stór fyrirtæki.  Þessi fyrirtæki fá titilinn Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2015.

Fyrirtæki ársins 2015 voru valin með þeim hætti að spurningalisti var lagður fyrir starfsmenn fyrirtækja þar sem þeir voru inntir eftir mati á innra starfsumhverfi fyrirtækis síns. Mælingin náði til átta mismunandi þátta í starfsumhverfi fyrirtækja, en með því að láta mælinguna ná til margra þátta fæst heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi þeirra. Svo víðtæk mæling hjálpar stjórnendum einnig að átta sig betur á stöðu mála hjá sínu fyrirtæki því þeir fá niðurstöður um hvern þátt starfsumhverfisins.

Þórunn Guðmundsdóttir formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands

Þór­unn Guðmunds­dótt­ir hæsta­rétt­ar­lögmaður var í dag kjörin formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands. Þórunn var kosin í bankaráðið af Alþingi í mars síðastliðnum í stað Ólafar Nordal sem hætti í ráðinu er hún tók við embætti innanríkisráðherra. Á fundi ráðsins í dag var Þórunn svo kosin formaður.  Þórunn hefur um árabil starfað sem eigandi að LEX lögmannsstofu.

Chambers Europe metur LEX lögmannstofu í hæsta gæðaflokki

Chambers Europe gaf í dag út mat sitt á lögmannstofum í Evrópu.  LEX er metið í „Band 1“, sem er hæsta mögulega einkunn sem Chambers gefur út.  Er LEX því áfram metið í hæsta gæðaflokki íslenskra lögmannstofa hjá öllum helstu matsfyrirtækjum.

Í mati Chambers Europe kemur m.a. fram að LEX lögmannstofa sé þekkt fyrir að veita þjónustu á öllum sviðum lögfræðinnar með framúrskarandi sérfræðinga að öllu leyti á sviði fyrirtækja- og viðskiptalögfræði.  Sem dæmi um nýleg verkefni er minnst á yfirtökur fyrirtækja, endurfjármagnanir og ráðgjöf varðandi stjórnarhætti og samkeppnisrétt.

Teymisstjóranum Ólafi Haraldssyni er hrósað fyrir samningatækni.  Einn viðskiptavinur segir: „Ég var mjög sáttur við hans aðferð við samningaviðræðurnar.  Hann er rólegur og hann undirbýr sína afstöðu mjög vel – röksemdafærsla hans vann í raun vinnuna fyrir hann.“

Garðari Gíslasyni er hrósað fyrir skattaþekkingu og þekkingu á viðskiptalífinu.  „Hann hefur djúpa þekkingu á skattamálum.  Hann er snöggur til verka og hefur yfirgripsmikla þekkingu á þeim geira sem að við störfum í og þeim áskorunum sem að við mætum “ segir annar viðskiptavinur.

Þeir sem talað er við lýsa Aðalsteini Jónassyni sem „mesta sérfræðingi á sviði banka og fjármagnsréttar – minn fyrsti kostur.  Þegar að þú mætir með hann þér við hlið þá veistu að hinir munu hlusta.“

Legal 500 gefur LEX hæstu einkunn

Legal 500 hefur í dag gefið LEX lögmannstofu hæstu einkunn í árlegu mati sínu.  LEX nýtur því áfram hæstu einkunnar hjá öllum helstu fyrirtækjum sem leggja mat á gæði lögmannstofa.  Í mati Legal 500 kemur m.a. fram:

,,LEX er ein af leiðandi lögmannsstofum á Íslandi, sem þjónustar viðskiptavini sína með yfirgripsmikilli þjónustu, á breiðu sviði fjármála-, félaga- og viðskiptalögfræði auk annarra þátta í íslenskri lögfræði.

Það er stefna LEX að mæta lögræðilegum þörfum viðskiptavina sinna með hliðsjón af þeim öru breytingum sem eiga sér stað á bæði innlendum og erlendum vettvangi.  Á síðustu áratugum hefur LEX gætt hagsmuna fjölda viðurkenndra erlendra fyrirtækja og samtaka auk innlendra stórfyrirtækja.

Á meðal viðskiptavina LEX eru stórir alþjóðlegir og innlendir bankar og fjármálastofnanir, kaupmenn og skipafélög, auk fjölda stærri sveitarfélaga, opinberra stofnana, tryggingafélaga, iðnaðarframleiðenda, fjölmiðla, veitustofnana og einstaklinga.“