Sveinn Snorrason Hæstaréttarlögmaður lést aðfaranótt mánudagsins 3. september s.l.
Upphaf LEX lögmannsstofu má rekja til þess að Sveinn Snorrason og Guðmundur Ingvi Sigurðsson sem þá voru fulltrúar hjá Sakadómi Reykjavíkur ákváðu að fara úr örygginu hjá ríkinu og opna lögmannsstofu. Sveinn byrjaði stofureksturinn 1. desember 1959 að Klapparstíg 26 í Reykjavík, en Guðmundur kom til starfa 2 mánuðum seinna. Nokkrum árum seinna bættust Jóhannes L.L. Helgason og Jónas A. Aðalsteinsson í hópinn á Klapparstígnum, en Jónas starfar enn á LEX. Þar með var lagður grunnur að því sem er lögmannsstofan LEX í dag. Sem betur fór ekki fyrir þeim, eins og Tómasi Guðmundssyni borgarskáldi og lögfræðingi forðum, sem hann lýsir svo í ljóðinu „Þegar ég praktíseraði“: „Það skorti ekki vitund á þessi húskynni, nema ofurlítinn praxís og útborgunartíma“. Verkefnin voru strax næg og stofan sem Sveinn stofnaði fyrir næstum 59 árum er nú næststærsta lögmannsstofa landsins. Það var Sveinn sem gaf stofunni heiti, LEX (lög á latínu), enda var hann latínumaður góður.
Það sem hefur alla tíð einkennt LEX sem vinnustað er létt andrúmsloft, nokkuð sem gleðimaðurinn Sveinn átt sinn þátt í að skapa. Þrátt fyrir að Sveinn hyrfi frá LEX fyrir margt löngu sagði hann sem betur fer ekki alveg skilið við stofuna, heldur kom reglulega í heimsókn og sagði skemmtisögur á kaffistofunni. Hann kvartaði stundum undan því að hann þekkti nú orðið fáa á LEX, en þegar betur var að gáð hafði hann gjarnan þekkt afa, ömmur, langafa og langömmur yngri starfsmannanna.
Að leiðarlokum færum við á LEX Sveini þakkir fyrir að hafa lagt grunninn að LEX, þakkir fyrir samstarfið, vináttuna og gleðina.
Dómur um skaðabótaábyrgð vegna skipsskaða
Fimmtudaginn 7. júní sl. var dómur kveðinn upp í Hæstarétti í máli nr. 611/2017 Stálsmiðjan Framtak ehf. og Tryggingarmiðstöðin hf. gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. kröfðu Stálsmiðjuna Framtak ehf. og Tryggingamiðstöðina hf., ábyrgðartryggjanda félagsins, um greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem Björgun ehf. varð fyrir er skip þess Perlan RE sökk í Reykjavíkurhöfn.
Féll dómur á þann veg að Stálsmiðjunni Framtak ehf. og Tryggingarmiðstöðinni hf. var gert að greiða Sjóvá-Almennum tryggingum hf. helming þess sem félagið hafið greitt Björgun ehf. úr tryggingum félagsins meðal annars vegna björgunar, hagsmunatryggingu og áhafnartryggingu skipsins.
Kristín Edwald, hrl. og eigandi á LEX flutti þetta mál f.h. Sjóvá-Almennra trygginga hf.
Sjá frétt um dóminn á vefsíðu Hæstaréttar – en dóminn í heild sinni má lesa hér
Arnar Þór Stefánsson með erindi á fundi Verkfræðingafélagi Íslands
Verkfræðingafélag Íslands stóð fyrir morgunfundi undir yfirskriftinni: Minna skrifræði – Meiri ábyrgð. Skipulagsferli – skilvirkni í þágu velferðar. Á fundinum flutti Arnar Þór Stefánsson, lögmaður og eigandi á LEX erindi undir heitinu: „Skilvirkari og sanngjarnari löggjöf“.
Arnar Þór Stefánsson hrl. minnti í upphafi erindis síns á það markmið Árósarsamningsins að tryggja rétt almennings og umhverfissamtaka til þess að hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta umhverfið. Allt sem gert væri til þess að gera löggjöfina skilvirkari og sanngjarnari þyrfti að vera innan ramma Árósarsamningsins og EES- réttar.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var sett á laggirnar árið 2012 og hefur frá upphafi glímt við málshraðavandamál. Aukin fjárveiting 2018 og aukning um tæplega tvö stöðugildi er ekki líkleg til þess að breyta þar miklu um. Arnar Þór gerði grein fyrir því að ástæður að baki löngum málsmeðferðartíma hjá Úrskurðarnefnd væru þríþættar. Í fyrsta lagi væri fjöldi kærumála meiri en gert hafði verið ráð fyrir við stofnun nefndarinnar. Í öðru lagi hefði fjölgun krafna um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa aukist verulega. Þannig hefði 15% af innkomnum málum á árunum 2012 – 2013 verið af þeim toga en síðustu ár hefði hlutfallið verið 30 – 40%. Í þriðja lagi hefði viðamiklum málum fjölgað.
Meiri ábyrgð í kærumálum
Arnar Þór fór síðan yfir hugmyndir að því hvernig mætti innleiða meiri ábyrgð í kærumálum með hóflegri gjaldtöku. Hann lagði áherslu á orðið hóflegt þar sem gjaldtaka mætti ekki verða hindrun í vegi þátttöku almennings en á móti því mætti einnig vinna með gjafsókn af hálfu hins opinbera þegar um væri að ræða fjárvana aðila.
Á fundinum nefndi hann kærugjald, málskostnaðargjald vegna tilefnislausra kæra, tryggingargjald vegna stöðvunarkröfu og skilyrði yfir aðild umhverfisverndar – og útivistarsamtaka að kærumálum. Loks nefndi hann auknar heimildir til flýtimeðferðar.
Það eru fordæmi fyrir kærugjaldi víða í lögum og reglum og ekki gert ráð fyrir að allur kostnaður af kæruferli greiðist úr ríkissjóði eins og tilfellið er með Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Afleiðingin gæti orðið færri mál og aukinn málshraði. Hægt væri að kveða á um að kærugjald skuli endurgreitt fallist úrskurðarnefndin á málatilbúnað kæranda í heild eða að hluta eins og t.d. gildi hjá Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála.
Skilyrði fyrir kærurétti
Upptaka málskostnaðargjalds til ríkissjóðs eða gagnaðila, sem væri talsvert hærri fjárhæð en kærugjald, gæti komið til greina í þeim tilvikum þegar kæra reynist bersýnilega tilefnislaus eða er höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framkvæmd. Um þetta er t.d. að finna fordæmi í lögum um opinber innkaup.
Upptaka hóflegs tryggingargjalds vegna stöðvunarkröfu á hafnar eða yfirvofandi framkvæmdir á sér meðal annars fordæmi í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. og er fjárhæðin metin hverju sinni með tilliti til hugsanlegs tjóns.
Til álita gæti komið að þrengja aðild umhverfisverndar – og útivistarsamtaka að Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála með skilyrði um það að til kæruréttar stofnist að því gefnu að slík samtök hafi látið sig mál varða á fyrri stigum þess. Þetta er í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar. Það er íþyngjandi fyrir framkvæmdaaðila að þurfa að sæta kæru á lokastigi framkvæmdar sem hefur verið í löngu undirbúnings- og kynningarferli. Í gildistíð eldri laga nr. 73/1997 var hægt að vísa kæru frá ef kærandi hafði ekki látið sig málið varða á fyrri stigum. Ekki er sambærilegt ákvæði í gildandi lögum.
Þá kemur til greina að auka heimildir til flýtimeðferðar mála sem varða verulega hagsmuni aðila, hvort sem um er að ræða kærða eða kærenda. Meginreglan hjá úrskurðarnefndinni er að taka mál fyrir í tímaröð innnkominna erinda. Skýr lagaheimild til þess að ná fram flýtimeðferð gæti hugsanlega dregið úr fjölda stöðvunarkrafna.
Arnar Þór sagði að endingu að hugsanlegar lagabreytingar kölluðu á samráð og valkosta- og áhrifamat. Þær þyrftu að vera í samræmi við Árósarsamninginn og alþjóðlegar skuldbindingar. Nauðsynlegt væri að líta til þróunar í Evrópu, einkum á Norðurlöndunum.
LEX veitir fjórum útgerðarfélögum ráðgjöf í einum af stærstu skipasmíðasamningum Íslandssögunnar.
LEX veitir fjórum útgerðarfélögum ráðgjöf í einum af stærstu skipasmíðasamningum Íslandssögunnar.
Þann 3. desember s.l. var tilkynnt í Kauphöllinni í Singapore að fjögur íslensk útgerðarfélög hefðu náð samningum við Vard skipasmíðastöðina í Noregi um hönnun og smíði á 7 togskipum. Eyvindur Sólnes eigandi á LEX veitti Berg-Huginn, Útgerðarfélagi Akureyringa, Gjögri og Skinney-Þinganes ráðgjöf við samningsgerðina. Áætlað heildarverðmæti samningana er um 700 milljónir norskra króna.
Í fréttatilkynningunni segir m.a.: „Vard og úterðirnar fjórar hafa þróað nýja hugsun fyrir þessi sjö togskip vegna fiskveiða við Ísland. Skipin sem eru 29 metrar á lengd og 12 metrar á breidd verða smíðuð og útbúin hjá Vard Aukra í Noregi og koma til afhendingar á árinu 2019.“
Hulda Árnadóttir skipaður formaður fjölmiðlanefndar
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað Huldu Árnadóttur héraðsdómslögmann og eiganda á LEX formann fjölmiðlanefndar frá 20. október 2017. Hulda var áður varaformaður nefndarinnar.
Hulda sem er einn af eigendum LEX hóf störf hjá LEX árið 2006 að loknu framhaldsnámi við Bristol-háskóla og hefur starfað hjá félaginu óslitið síðan. Hulda lauk lagaprófi árið 2001 og starfaði hjá óbyggðanefnd frá útskrift til ársins 2005 þegar hún hélt utan til framhaldsnáms.
Hulda hefur í störfum sínum hjá LEX lagt megináherslu á samkeppnisrétt og hugverka- og auðkennarétt. Þá hefur Hulda einnig sérþekkingu á sviði eignarréttar, þ.á m. lögum um náttúruauðlindir, fjölmiðlaréttar og Evrópuréttar auk þess sem hún annast verkefni á vettvangi stjórnskipunarréttar og mannréttinda. Hulda er reyndur málflytjandi og hefur auk þess umtalsverða reynslu af rekstri mála fyrir Samkeppniseftirlitinu, Einkaleyfastofu og Neytendastofu. Hulda hefur einnig reynslu af rekstri mála fyrir EFTA-dómstólnum og Mannréttindadómstóli Evrópu.
LEX styður ráðstefnu um alþjóðlegan gerðardómsrétt
Dagana 7. og 8. september s.l.fór fram á Íslandi ráðstefna á vegum Gerðardóms Alþjóða viðskiptaráðsins til að kynna málsmeðferð fyrir gerðardómi sem skilvirka lausn við úrlausn viðskiptatengdra ágreiningsmála. Á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni var Garðar Víðir Gunnarsson hdl., sem er einn af mestu sérfræðingum á Íslandi á sviði gerðardómi, en Garðar er einn af eigendum LEX.
LEX var einn af styrktaraðilum ráðstefnunnar.
LEX ráðleggur NetApp við kaup á Greenqloud
NetApp hefur keypt íslenska skýlausnarfyrirtækið Greenqloud. Greenqloud var stofnað árið 2010 og var fyrsta fyrirtæki í heimi til þess að bjóða upp á skýjaþjónustu sem eingöngu var rekin á endurnýjanlegri orku. Greengloud hefur ennfremur þróað Qstack; sérhannaða hugbúnaðarlausn sem getur á auðveldan hátt stýrt skýjalausnum og tölvuþjónum fyrirtækja.
NetApp, Inc. var stofnað árið 1992 en hefur verið skráð sem Fortune 500 fyrirtæki frá árinu 2012, sem gerir það að einu stærsta fyrirtæki Bandaríkjanna fimmta árið í röð. Höfuðstöðvar þess eru í Sunnyvale, Kaliforníu, en fyrirtækið sérhæfir sig í geymslukerfum og utanumhaldi gagnavera ásamt því að vera leiðandi og í mikilli sókn þegar kemur að hybrid skýjaþjónustu.
LEX var lögfræðilegur ráðgjafi NetApp á þessum viðskiptum.
Aðalsteinn Jónasson skipaður dómari við Landsrétt
Aðalsteinn Jónasson hrl. LL.M og eigandi að LEX hefur verið skipaður dómari við Landsrétt. Aðalsteinn sem hefur starfað á LEX með hléum frá árinu 1992 er einn mesti sérfræðingur Íslands á sviði fjármagnsmarkaðaréttar. Eftir hann liggja bækurnar Viðskipti með fjármálagerninga sem kom út árið 2009 og Markaðssvik, sem kom út fyrr á þessu ári.
Það er ekkert nýtt að lögmenn frá LEX veljist til mikilvægra starfa í íslensku samfélagi og erum við á LEX gríðarlega stolt af skipun Aðalsteins. Aðalsteinn mun hefja störf við Landsrétt þann 1. janúar n.k., en þangað til mun hann sinna hefðbundnum störfum á LEX.
Garðar Valdimarsson gengur til liðs við LEX
Garðar Valdimarsson hefur gengið til liðs við LEX og mun þar sinna skattaráðgjöf til viðskiptavina LEX. Garðar sem er einn af helstu skattasérfræðingum landsins hefur í gegnum tíðina starfað á sviði skattamála eftir að hafa lokið prófi í endurskoðun og lögfræði hér heima og framhaldsnámi í skattarétti við Kaupmannahafnarháskóla árið 1976.
Hann var skipaður skattrannsóknarstjóri það sama ár og síðan ríkisskattstjóri frá 1986 auk þess að hann var formaður samninganefndar um tvísköttum á árunum 1995 til 1998. Þá átti hann sæti í nefndum og starfshópum vegna upptöku staðgreiðslu og virðisaukaskatts hér á landi. Garðar átti sæti í úrskurðarnefnd um ákvarðanir fjármálaeftirlitsins meðan hún starfaði.
Garðar varð hæstaréttarlögmaður árið 1999 og starfaði í lögmennsku í samstarfi við aðra til ársins 2008 þegar hann gerðist meðeigandi í Deloitte.
Garðar kenndi um tíma skattarétt við Háskóla Íslands og hefur skrifað nokkrar fræðigreinar á sviði skattaréttar.
Óskar Sigurðsson gengur til liðs við LEX
Óskar Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands hefur gengið til liðs við LEX lögmannsstofu. Óskar hefur á undanförnum árum rekið JP lögmenn í samstarfi við aðra en eignaðist JP lögmenn að fullu fyrr á þessu ári. Nú hafa náðst samningar um samruna JP lögmanna og LEX.
Helstu sérsvið Óskars eru eignaréttur, verktakaréttur, bygginga- og skipulagsmál og mál er varða kaup og sölu fasteigna, en hann hefur um árabil verið þekktur málflutningsmaður.
Óskar er fæddur árið 1972 og lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1997. Hann hlaut réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi ári síðar og fyrir Hæstarétti árið 2005.
Óskar hefur kennt eigna- og kröfurétt við Háskóla Íslands frá árinu 1998.
Recent Comments