Arðgreiðsla móðurfélags á grundvelli hlutdeildartekna talin lögmæt

Landsréttur kvað þann 8. nóvember s.l. upp dóm í máli sem Birgir Már Björnsson lögmaður á LEX flutti f.h. International Seafood Holdings S.á.r.l. gegn íslenska ríkinu.

Í málinu var þess krafist að felldur yrði úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra sem héraðsdómur hafði staðfest. Málið varðaði það hvort arðgreiðsla móðurfélags af óráðstöfuðu eigin fé sem myndast hafði á grundvelli hlutdeildar móðurfélags í jákvæðri afkomu dótturfélaga sinna, væri lögmæt úthlutun fjármuna í móðurfélagi skv. þágildandi 1. mgr. 73. gr. sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um einkahlutafélög.

Skattframkvæmd ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar, sem staðfest hafði verið fyrir héraðsdómi, hafði fram til þess tíma verið sú, að arðgreiðsla móðurfélags við þessar aðstæður væri ólögmæt þar sem arðgreiðslan hafi ekki byggst á úthlutuðum og mótteknum arði frá dótturfélagi.

Í dómi Landsréttar var fallist kröfu International Seafood Holdings S.á.r.l. um að hlutdeildartekjur sem þessar bæri réttilega að færa sem hagnað móðurfélags samkvæmt lögum um ársreikninga og að þær mynduðu frjálsan sjóð móðurfélags í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um einkahlutafélög. Jafnframt féllst Landsréttur á að hvers kyns takmarkanir á ráðstöfun slíkra sjóða með arðgreiðslum til hluthafa sem ekki fengju beina stoð í ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, væru óheimilar. Enn fremur tók Landsréttur fram að með setningu breytingarlaga nr. 73/2016 hafi ekki falist lögfesting á eldri reglu um að hlutdeildartekjur skyldu færast sem bundið eigið fé í ársreikningi móðurfélags, heldur innleiðing á nýrri lagareglu á grundvelli Evróputilskipunar. Með vísan til þessa felldi Landsréttur úrskurð ríkisskattstjóra úr gildi og var íslenska ríkinu gert að endurgreiða þegar greiddan fjármagnstekjuskatt auk þess að greiða málskostnað.

Af dómi Landsréttar leiðir að aðrir aðilar sem sætt hafa skattlagningu við viðlíka aðstæður kunna að eiga rétt til endurkröfu á hendur íslenska ríkinu.

LEX veitir Iceland Seafood International ráðgjöf við almennt útboð og skráningu á aðalmarkað Nasdaq á Íslandi.

Iceland Seafood International hf. („Iceland Seafood“), viðskiptavinur LEX, tilkynnti í dag að viðskipti myndu hefjast með hlutabréf félagsins á aðalmarkaði Nasdaq á Íslandi. Iceland Seafood var áður skráð á First North markað Nasdaq á Íslandi og er 48. félagið sem er skráð á Norðurlandamarkaði Nasdaq árið 2019. Samhliða skráningunni átti sér stað almennt útboð hlutabréfa í Iceland Seafood þar sem 225.000.000 nýir hlutir voru boðnir fjárfestum til sölu.

Í yfirlýsingu Bjarna Ármannssonar, forstjóra Iceland Seafood, segir: „Við erum mjög ánægð með að hafa náð þessum mikilvæga áfanga á vegferð Iceland Seafood og vil ég þakka starfsfólki okkar og hluthöfum fyrir samfelldan stuðning. Framundan eru talsverð vaxtartækifæri og við erum mjög þakklát fyrir góðar viðtökur sem hlutafjárútboð almennings okkar fékk frá fjárfestum, sem gerir okkur kleift að vinna frekar að þessum tækifærum. Við fögnum nýjum fjárfestum og hlökkum til að vinna með þeim í framtíðinni.“

Magnús Harðarson, framkvæmdastjóri Nasdaq Iceland sagði. „Iceland Seafood hefur sýnt gott fordæmi þegar kemur að því að koma viðskiptaáætlunum sínum í framkvæmd með því að nýta tækifærin sem hlutabréfamarkaðurinn hefur upp á að bjóða. Fyrirtækið var skráð á First North árið 2016 og frá þeim tíma hefur markaðsvirði þess vaxið um 250%. Við óskum fyrirtækinu og starfsfólki þess til hamingju með þennan frábæra árangur, skráningu á Aðalmarkaðinn og hlökkum til að halda áfram að vinna með þeim að frekari vexti og sýnileika“.

LEX veitti Iceland Seafood lögfræðilega ráðgjöf í tengslum við almennt útboð félagsins og skráningarferlið.

Vörumerki í lyfjaiðnaði á Íslandi

Hulda Árnadóttir, eigandi og María Kristjánsdóttir, fulltrúi, birtu nýlega þessa grein um vörumerki í lyfjaiðnaði á Íslandi í Pharmaceutical Trademarks: A global Guide 2010/2021

Greinin birtist upphaflega í Pharmaceutical Trademarks: A Global Guide 2020/2021,  viðbæti við World Trademark Review, útgefið af Law Business Research – IP Division. Til að skoða heildarútgáfu ritsins vinsamlegast farið á síðuna www.WorldTrademarkReview.com.

Útgáfa nýrra starfs- og rekstrarleyfa fyrir sjókvíaeldi Fjarðalax og Arctic Sea Farm í Patreks- og Tálknafirði

Með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september síðastliðinn var kröfum um ógildingu rekstrarleyfa Fjarðalax og Arctic Sea Farm vísað frá dómi. Til viðbótar því að vísa málinu frá hafnaði dómarinn einnig efnislega öllum röksemdum stefnenda í málinu.

Af hálfu LEX önnuðust eigendurnir  Guðjón Ármannsson, Kristín Edwald og Víðir Smári Petersen lögfræðilega ráðgjöf fyrir Fjarðalax og Arctic Sea Farm.

Í lok ágúst gáfu Umhverfisstofnun og Matvælastofnun út starfs- og rekstrarleyfi fyrir umrædd fyrirtæki til sjókvíaeldis í Patreks- og Tálknafirði. Er því nú endanlega lokið margra ára baráttu fyrirtækjanna fyrir því að fá fullgild leyfi fyrir starfsemi sinni í þessum fjörðum. Gífurlegir hagsmunir voru undir í þessu máli, ekki einvörðungu fyrir fyrirtækin sjálf heldur einnig samfélagið fyrir vestan og þjóðarbúið. Athuganir benda til þess að áframhaldandi uppbygging á svæðinu muni hafa verulega jákvæð áhrif á hagræna og samfélagslega þætti. Margt bendi til að aukin tiltrú fólks á svæðið og fjölbreyttari atvinnumöguleikar auki og styrki jákvæðu áhrifin en nú þegar hefur starfsemin átt þátt í að snúa við neikvæðri íbúaþróun á svæðinu. Fleiri hundruð bein og óbein störf á svæðinu má rekja til starfsemi eldisfyrirtækjanna þar. LEX aðstoðaði Fjarðalax og Arctic Sea Farm í öllu leyfisveitingaferlinu.

LEX ráðleggur Ancala Partners við kaup í HS Orku hf.

Guðmundur Ingvi Sigurðsson lögmaður á LEX var lögfræðilegur ráðgjafi Ancala Partners vegna fjárfestingar Ancala Partners í HS Orku hf. Ancala Partners keypti hlutina af Jarðvarma, félag í eigu fjórtán lífeyrissjóða sem var eigandi að 33,4% hlut í HS Orku, sem hafði nýtt sér kauprétt sinn til að ganga inn í kaup á hlutum í HS Orku fyrir um 37 milljarða króna. Eftir fjárfestinguna á Ancala Partners 50% hlut í HS Orku á móti Jarðvarma.

HS Orka er þriðja stærsta orkufyrirtækið á Íslandi og það eina í einkaeigu. Fyrirtækið hefur rúmlega 40 ára reynslu af vinnslu endurnýjanlegrar orku; á og rekur tvö jarðvarmaver annað í Svartsengi og hitt á Reykjanesi. Framkvæmdir við fyrstu vatnsaflsvirkjun fyrirtækisins, Brúarvirkjun í Biskupstungum, standa nú yfir.

Aðrir starfsmenn sem unnu að ráðgjöfinni voru þau Fanney Frímannsdóttir og Snæbjörn Ólafsson, fulltrúar á LEX

Sveitarfélögum dæmt í hag í málum er varða 1,4 ma. kr. hagsmuni

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli sem Óskar Sigurðsson lögmaður á LEX höfðaði f.h. Grímsnes- og Grafningshrepps gegn íslenska ríkinu vegna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Fjögur önnur sveitarfélög, Skorradalshreppur, Hvalfjarðarsveit, Ásahreppur og Fljótsdalshreppur höfðu höfðað samskonar mál á hendur íslenska ríkinu og hefur þessi dómur fordæmisgildi fyrir þau dómsmál. Þá lágu fyrir sambærilegar kröfur umræddra sveitarfélaga vegna síðari ára á hendur íslenska ríkinu.

Í málinu reyndi á hvort heimilt væri í reglugerð að kveða á um þau sveitarfélög sem hefðu heildarskatttekjur af útsvari og fasteignaskatti sem teldist verulega umfram landsmeðaltal skyldu ekki njóta tiltekinna framlaga úr Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að í skýringum í greinargerð frumvarps til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 með reglu þeirri er varð 2. mgr. 78. gr. kæmi fram að tilgangur hennar væri að taka af skarið um að ákvörðun um tekjustofna sveitarfélaga ætti undir löggjafarvaldið og þar með ekki undir framkvæmdarvaldið. Í ljósi stjórnskipulegrar stöðu sveitarfélaga og fyrirmæla 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar yrði lagaáskilnaðarregla ákvæðisins ekki túlkuð á annan veg en þann, að ekki væri heimilt að fella niður tekjustofna sveitarfélaga í heild eða að hluta nema með lögum. Yrði það því ekki gert með reglugerð.

Heildarfjárhæð krafna vegna þessara mála og öðrum samkynja kröfum sveitarfélaganna sem nú hefur fengist niðurstaða um, nemur u.þ.b. 1,4 milljörðum króna.

Sjávarsýn vinnur mál gegn íslenska ríkinu

Sjávarsýn, eignarhaldsfélag, sem m.a. á stóran eignarhlut í félögunum Ísmar, Gasfélaginu, Tandri, S4S, Iceland Seafood, Cargow og Íslenskri orkumiðlun vann nýverið sigur í dómsmáli gegn íslenska ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Málið má rekja til þess að Sjávarsýn sameinaðist dótturfélagi sínu Imagine Investment og var ágreiningur við skattyfirvöld um skattalega meðferð samrunans. Bæði Ríkisskattstjóri og Yfirskattanefnd úrskurðuðu Sjávarsýn í óhag, en í úrskurði Yfirskattanefndar var álag á endurálagningu Sjávarsýnar fellt niður. Fyrir héraðsdómi var hins vegar fallist á allar kröfur Sjávarsýnar og var íslenska ríkið dæmt til að endurgreiða Sjávarsýn með vöxtum áður álögð gjöld vegna málsins og málskostnað.

Málið snérist að miklu leyti um það hvort að Imagine Investment hefði við samrunann uppfyllt skilyrði 1. mgr. 54. gr. tekjuskattslaga um að hafa haft rekstur með höndum og ekki átt óverulegar eignir. Í stuttu máli féllst héraðsdómur á allan málatilbúnað Sjávarsýnar í vel rökstuddri niðurstöðu.

Garðar Víðir Gunnarsson, eigandi á LEX hafði umsjón með málinu, en Guðrún Lilja Sigurðardóttir fulltrúi flutti málið fyrir héraðsdómi.

Neyðarkallinn

LEX er þakklátt fyrir óeigingjörn og fórnfús störf björgunarsveita landsins og leggur sitt af mörkum til að styðja við starfsemi þeirra. Á myndinni sést Óskar Sigurðsson lögmaður og einn eigenda LEX veita stóra Neyðarkallinum viðtöku af hendi eins meðlima björgunarsveitanna.

Sveinn Snorrason, einn stofnenda LEX, látinn

Sveinn Snorrason Hæstaréttarlögmaður lést aðfaranótt mánudagsins 3. september s.l.

Upphaf LEX lögmannsstofu má rekja til þess að Sveinn Snorrason og Guðmundur Ingvi Sigurðsson sem þá voru fulltrúar hjá Sakadómi Reykjavíkur ákváðu að fara úr örygginu hjá ríkinu og opna lögmannsstofu. Sveinn byrjaði stofureksturinn 1. desember 1959 að Klapparstíg 26 í Reykjavík, en Guðmundur kom til starfa 2 mánuðum seinna. Nokkrum árum seinna bættust Jóhannes L.L. Helgason og Jónas A. Aðalsteinsson í hópinn á Klapparstígnum, en Jónas starfar enn á LEX. Þar með var lagður grunnur að því sem er lögmannsstofan LEX í dag. Sem betur fór ekki fyrir þeim, eins og Tómasi Guðmundssyni borgarskáldi og lögfræðingi forðum, sem hann lýsir svo í ljóðinu „Þegar ég praktíseraði“: „Það skorti ekki vitund á þessi húskynni, nema ofurlítinn praxís og útborgunartíma“. Verkefnin voru strax næg og stofan sem Sveinn stofnaði fyrir næstum 59 árum er nú næststærsta lögmannsstofa landsins. Það var Sveinn sem gaf stofunni heiti, LEX (lög á latínu), enda var hann latínumaður góður.

Það sem hefur alla tíð einkennt LEX sem vinnustað er létt andrúmsloft, nokkuð sem gleðimaðurinn Sveinn átt sinn þátt í að skapa. Þrátt fyrir að Sveinn hyrfi frá LEX fyrir margt löngu sagði hann sem betur fer ekki alveg skilið við stofuna, heldur kom reglulega í heimsókn og sagði skemmtisögur á kaffistofunni. Hann kvartaði stundum undan því að hann þekkti nú orðið fáa á LEX, en þegar betur var að gáð hafði hann gjarnan þekkt afa, ömmur, langafa og langömmur yngri starfsmannanna.

Að leiðarlokum færum við á LEX Sveini þakkir fyrir að hafa lagt grunninn að LEX, þakkir fyrir samstarfið, vináttuna og gleðina.

Dómur um skaðabótaábyrgð vegna skipsskaða

Fimmtudaginn 7. júní sl. var dómur kveðinn upp í Hæstarétti í máli nr. 611/2017 Stálsmiðjan Framtak ehf. og Tryggingarmiðstöðin hf. gegn  Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. kröfðu Stálsmiðjuna Framtak ehf. og Tryggingamiðstöðina hf., ábyrgðartryggjanda félagsins, um greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem Björgun ehf. varð fyrir er skip þess Perlan RE sökk í Reykjavíkurhöfn.

Féll dómur á þann veg að Stálsmiðjunni Framtak ehf. og Tryggingarmiðstöðinni hf. var gert að greiða Sjóvá-Almennum tryggingum hf. helming þess sem félagið hafið greitt Björgun ehf. úr tryggingum félagsins meðal annars vegna björgunar, hagsmunatryggingu og áhafnartryggingu skipsins.

Kristín Edwald, hrl. og eigandi á LEX flutti þetta mál f.h. Sjóvá-Almennra trygginga hf.

Sjá frétt um dóminn á vefsíðu Hæstaréttar – en dóminn í heild sinni má lesa hér