Nýir hluthafar hjá LEX

Á aðalfundi LEX sem haldinn var föstudaginn 27. mars sl. var samþykkt að þrír nýir hluthafar gengu til liðs við hluthafahóp LEX. LEX kynnir stolt til leiks þau Birgi Má Björnsson, Fanneyju Frímannsdóttur og Láru Herborgu Ólafsdóttur

Birgir Már Björnsson er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti. Birgir hefur starfað á LEX frá árinu 2011 en var frá 2009 – 2011 hjá lögmannsstofunum Acta og Megin. Birgir hefur í störfum sínum hjá LEX lagt megináherslu á úrræði tengd greiðsluerfiðleikum (greiðslustöðvun, nauðasamningar og gjaldþrotaskipti), auk eignaréttar, félagaréttar og höfundaréttar. Birgir er reyndur málflytjandi með mikla reynslu af rekstri dómsmála.

Fanney Frímannsdóttir er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Fanney hóf störf hjá LEX í nóvember 2011 en starfaði á árunum 2009 – 2011 hjá Kaupþingi. Fanney hefur í störfum sínum hjá LEX lagt megináherslu á félaga- og fjármálarétt og hefur einkum sinnt verkefnum sem felast í ráðgjöf til stærri fyrirtækja, banka og fjármálafyrirtækja auk ráðgjafar við kaup og sölu á fyrirtækjum.

Lára Herborg er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómsstólum. Lára hóf störf hjá LEX í febrúar 2019. Hún lauk LL.M. gráðu í tæknirétti frá UC Berkeley í Bandaríkjunum vorið 2018. Lára starfaði um skeið á tækni- og hugverkaréttardeild alþjóðlegrar lögmannsstofu í Lúxemborg og hefur sinnt margvíslegum verkefnum á sviði hugverka- og tækniréttar, þ.m.t. á sviði fjártækni (e. fintech) og persónuverndar. Þá hefur Lára haldið fjölmarga fyrirlestra bæði hér á landi sem og erlendis og skrifað greinar á sviði tækni- og hugverkaréttar.

Lára hefur auk þess í störfum sínum sinnt mörgum verkefnum á sviði verktaka- og útboðsréttar, félaga- og kröfuréttar auk stjórnsýsluréttar.

Persónuvernd leggur á sektir í fyrsta sinn

Erla S. Árnadóttir, eigandi á LEX og fulltrúarnir María Kristjánsdóttir og Lena Markusdóttir rituðu grein í Fréttablaðið í dag þar sem fjallað er um þau tímamót sem urðu þann 10. mars sl. þegar Persónuvernd beitti í fyrsta sinn sektarákvörðunum en slík heimild er eitt af nýmælum í löggjöf um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem tók gildi sumarið 2018.

COVID-19 og réttarreglur um afpöntun vöru og þjónustu

Arnar Þór Stefánsson og Víðir Smári Petersen, eigendur á LEX, fjölluðu um réttarreglur um afpöntun vöru og þjónustu í samhengi við COVID-19 í Fréttablaðinu í dag. Reynir nú á ýmsar reglur laga og réttar sem sjaldan koma til skoðunar. Ber þar hæst reglur sem lúta að því hvað gerist þegar ekki er hægt, eða a.m.k. mjög örðugt, að efna þegar gerða samninga vegna ráðstafana sem gripið hefur verið til af völdum veirunnar, svo sem að fresta eða aflýsa viðburðum ýmiss konar, afpanta vörur og þjónustu sem þegar var búið að bóka og fleira.

Landsréttur dæmir Orkubúi Vestfjarða í hag

Þann 21. febrúar síðastliðinn kvað Landsréttur upp dóm í máli sem Jónas A. Aðalsteinsson, lögmaður hjá LEX, flutti fyrir hönd Orkubús Vestfjarða ohf. gegn Ísafjarðarbæ.
Í málinu krafðist umbjóðandi LEX þess að viðurkennt yrði að allur réttur til virkjunar vatnsafls í Úlfsá í Dagverðardal væri eign Orkubús Vestfjarða, og að samningur milli Ísafjarðarbæjar og AB-fasteigna ehf. um rannsóknar- og virkjunarleyfi í Úlfsá yrði ógiltur.

Byggði krafa Orkubús Vestfjarða á samningi við Ísafjarðarbæ frá 1977 um yfirtöku forvera Orkubúsins á rekstri, eignum og skuldum Rafveitu Ísafjarðar. Með samningnum var afhentur allur réttur til virkjunar vatnsafls, jarðhita og fallvatns sem Ísafjarðarbær eða rafveitan ætti eða kynni að eiga í löndum kaupstaðarins, rafveitunnar eða annars staðar. Náði samningurinn jafnt til þekktra sem óþekktra réttinda.

Ísafjarðarbær krafðist sýknu og hélt því fram að framangreindur samningur hefði hvorki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 66/1976 um Orkubú Vestfjarða, né rúmast innan ólögfestra heimilda sveitafélagsins til ráðstöfunar eigna sinna og réttinda. Ekki var fallist á þessi rök Ísafjarðarbæjar og staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms um að viðurkennt væri að allur réttur til virkjunar vatnsafls fallvatns í Úlfsá í Dagverðardal væri eign Orkubús Vestfjarða ohf.

„Hvað á barnið að heita?“

Hulda Árnadóttir birti í dag grein í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni „Hvað á barnið að heita“ þar sem hún fjallar um mannanöfn sem vörumerki og þær reglur sem gilda um skráningu mannanafn sem vörumerkja hér á landi

Bandarísk yfirvöld í skýjunum

Lára Herborg Ólafsdóttir birti nýlega grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins undir yfirskriftinni „Bandarísk yfirvöld í skýjunum“ þar sem hún fjallar um mismunandi löggjöf í Bandaríkjunum og Evrópu þegar kemur að aðgangi að gögnum. Greinina má sjá hér