Arnar Þór Stefánsson, eigandi á LEX, skrifaði grein í viðskiptablað Morgunblaðsins í dag þar sem hann gerir úthlutun mála til dómara að umfjöllunarefni. Hafa verði ákveðinn skilning á því að sjónarmið um skilvirkni í dómsýslu geri það að verkum að rétt geti verið að tiltekinn dómari eða dómarar dæmi mál á ákveðnum réttarsviðum, t.d. vegna sérþekkingar eða reynslu á slíkum sviðum. Skilvirknisjónarmið verði þó almennt að víkja fyrir sjónarmiðum um ásýnd réttarins þegar þeim lýstur saman.
Réttarstaða innherja skýrð
Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 123. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 („vvl.“) er innherja óheimilt að afla eða ráðstafa fjármálagerningum með beinum eða óbeinum hætti, fyrir eigin reikning eða annarra, búi hann yfir innherjaupplýsingum. Orðalag ákvæðisins gerir engan áskilnað um að innherji hafi nýtt sér viðkomandi innherjaupplýsingar til að gerast sekur um innherjasvik – nægilegt er að innherji hafi búið yfir innherjaupplýsingum á þeim tíma þegar viðskiptin áttu sér stað. Bann 123. gr. vvl. gengur lengra en 2. gr. markaðssvikatilskipunar ESB nr. 2003/6/EC sem ákvæðið á rætur sínar að rekja til þar sem nýting innherjaupplýsinga er gerð að skilyrði. Orðalag 123. gr. vvl. hefur af mörgum verið talið ganga helst til of langt með þeim afleiðingum að það geti girt fyrir eðlileg viðskipti þegar innherji býr yfir innherjaupplýsingum en beitir engum svikum – dæmi um slíkt tilvik er þegar tveir eða fleiri innherjar búa yfir nákvæmlega sömu innherjaupplýsingum og vilja eiga viðskipti.
Í dómi Landsréttar í máli nr. 917/2018 sem kveðinn var upp hinn 15. maí sl. reyndi á álitaefni þetta. Í málinu háttaði svo til að X, fruminnherji í N hf. seldi einkahlutafélaginu W ehf., sem var í hans eigu og undir hans stjórn hlutabréf sín í N hf. Ákæruvaldið taldi X hafa búið yfir innherjaupplýsingum þegar viðskiptin fóru fram og gaf út ákæru á hendur X þar sem honum var m.a. gefið að sök innherjasvik með framangreindum viðskiptum. Ákærði X hafnaði sök og byggði meðal annars á því að félagið, sem var alfarið í hans eigu og laut hans stjórn, hafi haft nákvæmlega sömu vitneskju um hag N hf. og hann sjálfur. Í niðurstöðu Landsréttar var gengið út frá því að X hafi búið yfir innherjaupplýsingum um N hf. þegar viðskiptin áttu sér stað, Um viðskiptin sem slík sagði Landsréttur hins vegar að þegar horft væri á atvik málsins í heild og til þeirra hagsmuna sem reglum um innherjaviðskipti væri ætlað að vernda verði ákvæðið ekki skýrt þannig að það eigi við um innbyrðis viðskipti þeirra sem búa yfir sömu innherjaupplýsingum þegar þeir eiga viðskipti með fjármálagerning. Sýknaði Landsréttur því X af ákæru um innherjasvik en tekið skal fram að í forsendum sínum vísaði Landsréttur meðal annars til þess að teknu tilliti til ástæðna viðskiptanna og opinberra tilkynninga um þau hafi í raun engin blekking falist í viðskiptunum gagnvart öðrum á hinum skipulega markaði.
Með dómi Landsréttar hefur áralöng óljós réttarstaða innherja því verið skýrð hvað framangreindar aðstæður varðar. Þannig er ekki útilokað að þrátt fyrir orðalag 123. gr. vvl. geti innherji átt viðskipti þegar hann býr yfir innherjaupplýsingum að öðrum skilyrðum uppfylltum. Framangreind niðurstaða Landsréttar er eðlileg enda fer hún í engu gegn verndarhagsmunum þeim sem bannreglunni í 1. tölulið 1. mgr. 123. gr. vvl. er ætlað að gæta. Þá er niðurstaðan í samræmi við dómaframkvæmd bæði Evrópudómstólsins sem og Hæstaréttar Danmerkur. Þá er niðurstaðan að lokum í samræmi við þá réttarstöðu sem verður hérlendis þegar ákvæði markaðssvikareglugerðar Evrópusambandsins nr. 596/2014 hafa verið innleidd í íslensk lög. Samkvæmt reglugerðinni, sem áætlað er að innleiða í lok árs, er nýting innherjaupplýsinga forsenda þess að innherjar geti gerst sekir um innherjasvik þegar þeir afla eða ráðstafa fjármálagerningum.
Samantekt: Stefán Orri Ólafsson
Endurupptökudómstóll tekur til starfa 1. desember 2020.
Alþingi hefur samþykkt frumvarp dómsmálaráðherra um stofnun Endurupptökudóms. Mun hann taka til starfa þann 1. desember 2020. Hlutverk hins nýja dómstóls er að skera úr um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmála sem lokið hefur með dómi héraðsdóms, Landsréttar eða Hæstaréttar.
Endurupptökudómur leysir endurupptökunefnd af hólmi en í febrúar 2016 kvað Hæstiréttur upp dóm þess efnis að sú skipan, að nefnd sem heyri undir framkvæmdarvald ríkisins gæti fellt úr gildi úrlausnir dómstóla væri andstæð meginreglu 2. gr. stjórnarskrár um þrígreiningu ríkisvaldsins. Í þeirri niðurstöðu fólst að ákvarðanir endurupptökunefndar væru því hvorki endanlegar né bindandi fyrir dómstóla. Með því að koma á fót sérdómstól, Endurupptökudómi, er þrígreining ríkisvaldsins tryggð sem og sjálfstæði dómstóla. Úrskurðir Endurupptökudóms eru endanlegir og verða ekki bornir undir aðra dómstóla.
Endurupptökudómur verður skipaður fimm dómendum. Hæstiréttur tilefnir einn dómara úr sínum röðum, Landsréttur tilnefnir annan úr sínum röðum og dómstjórar héraðsdómstólanna tilnefna sameiginlega einn dómara úr röðum héraðsdómara. Embætti tveggja dómara verða auglýst og skulu þeir ekki vera fyrrverandi eða starfandi dómarar eða starfsmenn dómstóls. Þrír dómarar kveða upp úrskurði í hverju máli, þeir tveir dómarar sem skipaðir eru eftir auglýsingu og einn embættisdómari þó ekki sá dómari sem tilnefndur er af því dómstigi sem kvað upp dóminn sem óskað er endurupptöku á.
Efnisleg skilyrði endurupptöku hvort heldur einkamála eða sakamála haldast óbreytt.
Brúarlán og umboðssvik
Kristín Edwald, eigandi á LEX skrifar grein í vefútgáfu Viðskiptablaðsins í dag þar sem hún fjallar um ríkisábyrgð á hluta svokallaðra brúarlána fjármálafyrirtækja til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna efnahagsáhrifa heimsfaraldursins sem nú geisar og víðtæka skilgreiningu dómstóla á refsiverðri háttsemi banka eftir fjármálahrunið 2008.
Smitrakningaröpp og Persónuvernd
Lena Mjöll Markusdóttir skrifar grein á Vísi í dag þar sem hún fjallar um smitrakningaröpp í samhengi við persónuvernd. Slík öpp geta eðli máls samkvæmt falið í sér söfnun og notkun persónuupplýsinga. Þann 19. mars sl. tilkynnti Evrópska persónuverndarráðið að persónuverndarreglur á borð við almennu persónuverndarreglugerð ESB girði ekki fyrir að ráðist sé í slíkar aðgerðir, enda sé það sameiginlegt markmið heimsbyggðarinnar um þessar mundir að stemma stigu við faraldrinum. Engu að síður þurfi á sama tíma að tryggja vernd þeirra persónuupplýsinga sem er safnað í tengslum við slíkar aðgerðir.
Legal500 – LEX metið í hæsta gæðaflokki
Matsfyrirtækið Legal 500 greinir árlega lögmannsstofur á heimsvísu með ítarlegri rannsóknarvinnu til þess að hafa ávallt áreiðanlegar upplýsingar um stöðu mála á sviði lögfræði og lögmennsku í heiminum.
Í ár var LEX metið í hæsta gæðaflokki (Tier 1) í öllum þeim níu flokkum sem metnir eru, eina íslenska lögmannsstofan sem náði hæsta mati í öllum flokkum;
- Banking, Finance and Capitals Markets
- Commercial, Corporate and M&A
- Dispute Resolution
- EEA and Competition
- Employment
- Maritime and Transport
- Real Estate and Construction
- Restructuring and Insolvency
- TMT and IP
LEX er gífurlega stolt af fólkinu sínu fyrir þessar glæsilegu niðurstöður. Heildarmatið, með vitnisburðum og yfirliti yfir lykilviðskiptavini má sjá hér
Vörumerki á veirutímum
María Kristjánsdóttir, lögmaður á LEX er með áhugaverða grein í Markaðnum – fylgiblaði Fréttablaðsins í dag. Í greininni gerir hún að umtalsefni þau áhrif sem COVID-19 heimsfaraldurinn er að hafa á vörumerkjaumsóknir víða um heim, en fjöldi umsókna um vörumerki sem innihalda orðin COVID-19, pandemic og Corona Virus hefur verið lagður fram.
Viðhöldum hringferð fjármagns
Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri LEX, skrifaði grein í Viðskiptablaðið í gær þar sem hann fjallar um fyrirsjáanlega efnahagskreppu í kjölfar COVID-19 veirunnar sem stafar einkum af því að hringekja fjármagns hefur nær stöðvast og það stóra verkefni sem framundan er í efnahagsmálum.
Lögfræðilegar áskoranir vegna veirufaraldurs
Arnar Þór Stefánsson skrifaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fjallar um lögfræðilegar áskoranir vegna veirufaraldurs. Veltir hann því upp að varla hafi menn haft í huga þegar ýmis grundvallarlög um verslun og viðskipti voru samin að slíkur heimsfaraldur sem nú geisar gæti brotist út. Það verður því áhugavert verkefni sem bíður dómsstóla þegar fram í sækir og ætla má að afleiðingar þessa faraldurs fyrir lög og lögfræði verði meðal annars þær að skerpa á regluverki.
Greiðslustöðvun – mikilvægt lagaúrræði á óvissutímum
Grein eftir Þórhall Bergmann, eiganda á LEX, birtist í dag í Markaðnum – fylgiriti Fréttablaðsins. Þórhallur fjallar þar um greiðslustöðvun, en það er úrræði skuldara, sem á í verulegum fjárhagsörðugleikum, til að koma nýrri skipan á fjármál sín. Við þær aðstæður sem eru nú í samfélaginu verða mörg fyrirtæki fyrir tekjuskerðingu og getur þetta úrræði, sem fjallað er um í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., gagnast fyrirtækjum við þessar aðstæður.
Recent Comments