Opnað fyrir óhefðbundin vörumerki

Hulda Árnadóttir og María Kristjánsdóttir lögmenn á LEX og stjórnendur GH Sigurgeirsson Intellectual Property (GHIP) – dótturfyrirtækis LEX eru í viðtali í Markaðnum – fylgiriti Fréttablaðsins í dag. Í viðtalinu ræða þeir m.a. um nýorðnar breytingar á vörumerkjalögum á Íslandi, en ein helsta breytingin er sú að opnað er fyrir skráningu á svokölluðum óhefðubundnum vörumerkjum.
Þær ræða einnig um áhrif heimsfaraldursins á skráningu vörumerkja og benda á mikilvægi þess að fyrirtæki kynni sér hvaða skilyrði vörumerki þurfa að uppfylla til að hægt sé að skrá þau og vernda. Þá segja þær einnig frá því að mikil aukning hafi orðið á að fyrirtæki og eigendur þekktra vörumerkja taki afstöðu í pólitískum málum og krafa um samfélagsstefnu sé orðin ríkari frá neytendum.

Nauðsynlegar aðgerðir í kjölfar Schrems II

Þann 16. júlí sl. féll stefnumarkandi dómur Evrópudómstólsins í máli nr. C-311/18 (Schrems II) sem varðaði lögmæti miðlunar Facebook á persónuupplýsingum frá netþjónum á Írlandi og til Bandaríkjanna. Lára Herborg Ólafsdóttir, eigandi á LEX fjallar um dóminn og afleiðingar hans í grein í Viðskiptablaðinu. Þar fer hún einnig yfir hvaða aðgerða fyrirtæki þurfa að grípa til.

Lára Herborg Ólafsdóttir og Erla S. Árnadóttir veita ráðgjöf um efnið.

Nauðasamningar við gjaldþrotaskipti

Birgir Már Björnsson, eigandi á LEX skrifaði grein í Viðskiptamoggann í dag þar sem hann fjallar um nauðasamninga við gjaldþrotaskipti. Þrátt fyrir að við gjaldþrotaskipti glati eigendur félags yfirráðum og réttindum yfir því eiga þeir hins vegar enn möguleika á að endurheimta fyrirtæki sín úr gjaldþrotameðferð. Í XXI. kafla gjaldþrotaskiptalaga er mælt fyrir um það að unnt sé að ljúka gjaldþrotaskiptum með nauðasamningi.

Breytingar á vörumerkjalögum

Þann 1. september 2020 tóku gildi lög nr. 71/2020, um breytingu á lögum um vörumerki nr. 45/1997. Með lögunum eru innleidd í íslenskan rétt ákvæði vörumerkjatilskipunar Evrópusambandsins 2015/2436. Lögin innihalda ýmis nýmæli, bæði til samræmingar á nálgun aðildarríkja Evrópusambandsins og EES/EFTA-ríkjanna varðandi skráningu, notkun og verndartíma vörumerkja en einnig ítarlegri ákvæði en áður um tengd réttindi, þ.e. félaga- og ábyrgðar- og gæðamerki. Þann 1. september 2020 tók einnig gildi ný viðbótarreglugerð um vörumerki nr. 850/2020 sem kom í stað eldri vörumerkjareglugerðar nr. 310/1997.

María Kristjánsdóttir, lögmaður hjá LEX, skrifaði grein þar sem hún fjallar um helstu breytingar laganna.

Togstreita fjártækni og persónuverndar

Lára Herborg Ólafsdóttir, eigandi á LEX skrifaði grein í viðskiptablað Morgunblaðsins þar sem hún fjallar um fyrirhugað frumvarp til nýrra laga um greiðsluþjónustu sem leggja á fyrir Alþingi í janúar 2021 og er ætlað að samræma reglur um greiðsluþjónustu þeim sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu, með innleiðingu tilskipunar ESB nr. 2015/2355 (PSD2). Markmið frumvarpsins er með annars að efla samkeppni á sviði greiðsluþjónustu og greiða fyrir aðgengi nýrra aðila á markaðinn.

Helstu breytingar með fyrirhuguðu lagafrumvarpi eru þær að gildissvið laganna verður rýmra og nýir aðilar, svokallaðir greiðsluvirkjendur og upplýsingaþjónustuveitendur, munu falla undir gildissvið laganna.

Athyglisvert er að skoða samspil markaðsþróunar- og samkeppnissjónarmiða sem eru ríkjandi í ákvæðum PSD2, við þau öryggis- og persónuverndarsjónarmið sem persónuverndarreglugerðin byggist á.

Mikilvægt er fyrir greiðsluvirkjendur og upplýsingaþjónustuveitendur að huga vel að því hvort viðunandi samþykki notandans til vinnslu persónuupplýsinga sé til staðar.

Tilskipun um rekstraraðila sérhæfðra sjóða (AIFMD) innleidd á Íslandi

Tilskipun ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, svokölluð AIFMD tilskipun, hefur loks verið innleidd á Íslandi með setningu laga nr. 45/2020 sem tóku gildi í vor. Þrátt fyrir að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi í framkvæmd fylgt ákvæðum tilskipunarinnar er þetta þarft og ánægjulegt skref þar sem heildarlöggjöf um rekstraraðila og sérhæfða sjóði er nú loks til staðar.

Lög nr. 45/2020 gilda um rekstraraðila sem reka eða markaðssetja einn eða fleiri sérhæfða sjóði hér á landi eða í öðrum ríkjum innan EES, án tillits til rekstrarforms rekstraraðila, rekstrarforms sérhæfðra sjóða og þess hvort þeir eru opnir eða lokaðir.

Þeir sem reka sérhæfða sjóði skulu hafa starfsleyfi til þess samkvæmt 6. gr. laganna eða vera skráðir hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands samkvæmt 7. gr. laganna. Rekstraraðilar með starfsleyfi og skráðir rekstraraðilar sem rekstraraðilar sérhæfðra sjóða eiga einir rétt á því að reka sérhæfða sjóði og til að hafa orðin „rekstraraðili sérhæfðra sjóða“ í nafni sínu. Hvort rekstraraðili er háður starfsleyfi eða skráningarskyldur veltur á ýmsum þáttum, þar á meðal heildareignum í rekstri viðkomandi rekstrarfélags og hvort rekstraraðilinn hefur starfsleyfi í öðru EES-ríki eða hefur verið skráður í öðru EES-ríki.

Stefán Orri Ólafsson (stefan@lex.is), einn eigandi LEX, hefur á undanförnum árum veitt bæði innlendum og erlendum sjóðastýringarfyrirtækjum ráðgjöf vegna markaðssetningar sjóða á Íslandi eða vegna annarra þátta íslensku sjóðalöggjafarinnar.

Veiki hlekkur bálkakeðjunnar

Lára Herborg Ólafsdóttir, eigandi á LEX skrifaði grein í Morgunblaðið í dag um bálkakeðjutækni og persónuvernd.

Persónuverndarreglugerðin sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, var meðal annars lögfest til þess að bregðast við framförum í tækni og var sett sett með það í huga að vera „tæknilega hlutlaus“. Þrátt fyrir framangreint markmið hefur ákveðin togstreita skapast við framfylgd reglnanna þegar bálkakeðjutækni (e. blockchain technology) er annars vegar.

Í greininni fjallar Lára Herborg um bálkakeðjutækni og hvers vegna reynst hefur erfitt að samrýma notkun bálkakeðja við gildandi persónuverndarlöggjöf.

LEX veitir fjárfestahópi ráðgjöf við kaup Norðanfisks af Brim

Þann 29. maí sl. var skrifað undir kaupsamning þar sem útgerðarfélagið Brim hf. seldi hópi fjárfesta á Akranesi allt hlutafé í Norðanfiski ehf. Norðanfiskur sérhæfir sig í framleiðslu, sölu og dreifingu á sjávarfangi til veitingahúsa á innanlandsmarkaði ásamt sölu neytendapakkninga í verslunum um allt land.

Framkvæmdastjóri Norðanfisks verður áfram Sigurjón Gísli Jónsson og formaður stjórnar verður Inga Ósk Jónsdóttir.

Örn Gunnarsson framkvæmdastjóri LEX var ráðgjafi í söluferlinu ásamt Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra á Akranesi og KPMG. Íslensk verðbréf voru til ráðgjafar og stýrðu söluferlinu fyrir hönd Brims.