Rafrænir hluthafafundir – hugum að undirbúningi

Rafrænir hluthafafundir, að hluta til eða í heild, geta verið ákjósanlegur kostur. Kristín Edwald, lögmaður og eigandi á LEX fjallar m.a. um heimild til rafrænna hluthafafunda skv. lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, rafræna framkvæmd og aukna almenna þekkingu á fjarfundarbúnaði í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar Verslunar.

Vernd uppljóstrara

Lára Herborg Ólafsdóttir, lögmaður og eigandi á LEX skrifaði grein í ViðskiptaMoggann þann 23. desember sl. sem fjallar um vernd uppljóstrara en ný lög nr. 40/2020 taka gildi nú um áramót sem ætlað er að vernda alla starfsmenn, opinbera og aðra, sem greina frá upplýsingum eða miðla gögnum í góðri trú um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda þeirra. Lögin skylda fyrirtæki með 50 starfsmenn eða fleiri m.a. til að setja skýrar verklagsreglur þar að lútandi.

Fæ ég skylduarfinn?

Birgir Már Björnsson, lögmaður og eigandi á LEX fjallar um erfðamál í Viðskiptamogganum í dag. Í nýlegum dómum Hæstaréttar í málum nr. 7/2020 og 8/2020 reyndi á samspil heimilsfestisreglu íslensks erfðaréttar og bandarískra reglna um tiltekið form sameignarréttinda, svokallað joint tenancy with a right of survivorship (JTWROS). Niðurstaða Hæstaréttar var sú að víkja frá heimilisfestisreglunni og láta réttarstöðu þess í stað ráðast af lögum í hinu erlenda ríki. Með beitingu erlendra sameignarréttinda líkt og JTWROS kynni aðili sem er heimilisfastur hér á landi að geta svipt skylduerfingja arfi eftir sig í heild eða að hluta, þrátt fyrir að íslensk lög gildi um dánarbússkipti hans og eignin hafi verið skráð eign hins látna allt til dánardags.

Markaðsþreifingar á íslenskum fjármálamarkaði – breytt framkvæmd við innleiðingu MAR

Stefán Orri Ólafsson, lögmaður og eigandi á LEX skrifaði grein í Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins í dag þar sem hann fjallar um frumvarp til nýrra laga um markaðssvik sem ætlað er að leysa af hólmi núgildandi ákvæði laga um verðbréfaviðskipti um meðferð innherjaupplýsinga, viðskipti innherja og markaðsmisnotkun. Með fyrirhuguðum lögum verður innleidd reglugerð Evrópusambandsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (MAR). Eitt þeirra nýmæla sem frumvarpið mælir fyrir um eru sérstök ákvæði um svokallaðar markaðsþreifingar (e. Market soundings). Innleiðing þessara ákvæða mun hafa talsverð áhrif á markaðsaðila hérlendis, meðal annars útgefendur skráðra fjármálagerninga, stóra fjárfesta og ráðgjafa á markaði. Markaðsaðilar þessir munu þurfa að tileinka sér nýtt formfastara verklag þegar þeir eiga samskipti á grundvelli markaðsþreifinga.

Munu greiðsluörðugleikar líða hjá?

Birgir Már Björnsson, lögmaður og eigandi á LEX lögmannsstofu ritaði grein í Viðskiptamoggann í gær þar sem hann fjallar um hlutverk stjórnar samkvæmt félagarétti og bendir á að meðal þeirra ákvarðana sem stjórnendur félaga bera ábyrgð á er mat á því hvort rekstri félags sé orðið þannig háttað að ekki séu lengur uppfyllt skilyrði til að halda rekstrinum áfram. Mikilvægt er nú á fordæmalausum tímum að stjórnendur bókhaldsskyldra aðila séu meðvitaðir um athafnaskyldur sínar samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti og áhrif athafnaleysis þeirra við þær aðstæður. Það er jafnframt brýnt að stjórnarmenn hugi tímanlega að möguleikum til endurskipulagningar rekstrar og láti reyna á frjálsa og eftir atvikum þvingaða samninga í því skyni.

Vangaveltur um gagnsemi nýrrar stjórnarskrár

Umræðan um nýja stjórnarskrá hefur verið hávær. Eydís Ýr Jónsdóttir, lögfræðingur á LEX lögmannsstofu, skrifaði grein á Vísi þar sem hún fer yfir grundvallarhugtök um stjórnarskrá (hlutverk stjórnarskrárinnar), hvað er stjórnarskrá? Hvaða hlutverki er henni ætlað að gegna? Hvaða málefni eiga heima í stjórnarskránni og hvað er betra að útfæra með almennri löggjöf?

LEX metin sem lögmannsstofa í hæsta gæðaflokki af IFLR1000

Fyrirtækið IFLR1000 metur lögmenn og lögmannsstofur á alþjóðavísu. Nýverið gáfu þeir út þrítugustu útgáfu matsins og þar er LEX metið í hæsta gæðaflokki (Tier 1), bæði í flokknum „Fjármálaréttur og fyrirtækjalögfræði“ (Financial and corporate) og „Verkefnaþróun“ (Project development).

Þeir Ólafur Haraldsson, Stefán Orri Ólafsson og Guðmundur Ingvi Sigurðsson fá viðurkenninguna „Mikils metinn“ (Highly regarded) í þessu nýjasta mati, Gunnar Viðar er jafnframt með nafnbótina „Eftirtektarverður lögmaður“ (Notable practisioner) fyrir árið 2020. Þeir eru allir lögmenn og eigendur á LEX.