Fréttir

LEX mun birta hér öðru hverju fréttir af málefnum stofunnar og starfsmönnum hennar, auk auglýsinga um útgáfu efnis frá LEX

Fréttir

ÚTGÁFA

LEX lögmannsstofa leggur áherslu á að viðskiptavinir njóti þjónustu sérhæfðra starfsmanna eftir því sem viðkomandi verkefni kallar á. Slíkt tryggir ekki aðeins fyrsta flokks ráðgjöf handa við­skiptavinum okkar heldur tryggir það einnig að þjónustan sé eins hagkvæm og kostur er. Þá starfa reyndir mál­flytjendur fyrir dómsstólum landsins á öllum fagsviðum LEX.

Dómur Hæstaréttar – fordæmi fyrir íslenskt lífeyrissjóðakerfi

28. nóvember, 2024

Hæstiréttur staðfestir að breytingar á samþykktum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna séu í samræmi við stjórnarskrá, mannréttindasáttmála Evrópu og lög um lífeyrissjóði.

Kristín Edwald lögmaður, flutti málið fyrir hönd Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og að málinu unnu einnig Stefán Orri Ólafsson lögmaður og Hjalti Geir Erlendsson lögmaður.

 

Álitaefnið laut að því hvort Lífeyrissjóði verzlunarmanna hefði verið heimilt að breyta lífeyrisréttindum þeirra sem ekki eru byrjaðir að taka lífeyri með hliðsjón af nýjum forsendum um lífslíkur. Forsagan er sú að nýjar forsendur fyrir mati á lífslíkum sem lífeyrissjóðum ber að nota við útreikning lífeyrisskuldbindinga tóku gildi í desember 2021. Nýju lífslíkutöflurnar endurspegla þá þróun að þjóðin, þar á meðal sjóðfélagar, lifir lengur þó mismikið eftir aldri. Eru þetta stærstu forsendubreytingar á rekstri lífeyrissjóða frá setningu laga um lífeyrissjóði árið 1997. Hafa þær verulega áhrif á útreikningsforsendum lífeyrisskuldbindinga lífeyrissjóða á Íslandi og bara í tilfelli Lífeyrissjóðs verzlunarmanna juku þær lífeyrisskuldbindingar sjóðsins um 77 milljarða króna. Lífeyrissjóður verzlunarmanna brást við með því að lækka réttindi yngri sjóðfélaga til mánaðarlegs ellilífeyris meira en þeirra eldri þar sem þeir kæmu til með að njóta lífeyris lengur.

 

Sjóðfélagi höfðaði mál á hendur lífeyrissjóðnum og krafðist að þessar breytingarnar yrðu dæmdar ógildar. Hæstiréttur hafnaði þeirri kröfu og staðfesti að Lífeyrissjóði verzlunarmanna hefði verið heimilt að breyta lífeyrisréttindum þeirra sem ekki eru byrjaðir að taka lífeyri með hliðsjón af nýjum forsendum um lífslíkur með þessum hætti. Hefur niðurstaðan fordæmisgildi fyrir fjölda annarra lífeyrissjóða sem gerðu sambærilegar breytingar á samþykktum sínum.

 

Dóminn má lesa í heild sinni hér.

Aftur í fréttasafn