Fréttir

LEX mun birta hér öðru hverju fréttir af málefnum stofunnar og starfsmönnum hennar, auk auglýsinga um útgáfu efnis frá LEX

Fréttir

ÚTGÁFA

LEX lögmannsstofa leggur áherslu á að viðskiptavinir njóti þjónustu sérhæfðra starfsmanna eftir því sem viðkomandi verkefni kallar á. Slíkt tryggir ekki aðeins fyrsta flokks ráðgjöf handa við­skiptavinum okkar heldur tryggir það einnig að þjónustan sé eins hagkvæm og kostur er. Þá starfa reyndir mál­flytjendur fyrir dómsstólum landsins á öllum fagsviðum LEX.

Arðgreiðsla móðurfélags á grundvelli hlutdeildartekna talin lögmæt

19. nóvember, 2019

Landsréttur kvað þann 8. nóvember s.l. upp dóm í máli sem Birgir Már Björnsson lögmaður á LEX flutti f.h. International Seafood Holdings S.á.r.l. gegn íslenska ríkinu.

Í málinu var þess krafist að felldur yrði úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra sem héraðsdómur hafði staðfest. Málið varðaði það hvort arðgreiðsla móðurfélags af óráðstöfuðu eigin fé sem myndast hafði á grundvelli hlutdeildar móðurfélags í jákvæðri afkomu dótturfélaga sinna, væri lögmæt úthlutun fjármuna í móðurfélagi skv. þágildandi 1. mgr. 73. gr. sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um einkahlutafélög.

Skattframkvæmd ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar, sem staðfest hafði verið fyrir héraðsdómi, hafði fram til þess tíma verið sú, að arðgreiðsla móðurfélags við þessar aðstæður væri ólögmæt þar sem arðgreiðslan hafi ekki byggst á úthlutuðum og mótteknum arði frá dótturfélagi.

Í dómi Landsréttar var fallist kröfu International Seafood Holdings S.á.r.l. um að hlutdeildartekjur sem þessar bæri réttilega að færa sem hagnað móðurfélags samkvæmt lögum um ársreikninga og að þær mynduðu frjálsan sjóð móðurfélags í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um einkahlutafélög. Jafnframt féllst Landsréttur á að hvers kyns takmarkanir á ráðstöfun slíkra sjóða með arðgreiðslum til hluthafa sem ekki fengju beina stoð í ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, væru óheimilar. Enn fremur tók Landsréttur fram að með setningu breytingarlaga nr. 73/2016 hafi ekki falist lögfesting á eldri reglu um að hlutdeildartekjur skyldu færast sem bundið eigið fé í ársreikningi móðurfélags, heldur innleiðing á nýrri lagareglu á grundvelli Evróputilskipunar. Með vísan til þessa felldi Landsréttur úrskurð ríkisskattstjóra úr gildi og var íslenska ríkinu gert að endurgreiða þegar greiddan fjármagnstekjuskatt auk þess að greiða málskostnað.

Af dómi Landsréttar leiðir að aðrir aðilar sem sætt hafa skattlagningu við viðlíka aðstæður kunna að eiga rétt til endurkröfu á hendur íslenska ríkinu.

Aftur í fréttasafn