Fréttir
LEX mun birta hér öðru hverju fréttir af málefnum stofunnar og starfsmönnum hennar, auk auglýsinga um útgáfu efnis frá LEX
Fréttir
ÚTGÁFA
LEX lögmannsstofa leggur áherslu á að viðskiptavinir njóti þjónustu sérhæfðra starfsmanna eftir því sem viðkomandi verkefni kallar á. Slíkt tryggir ekki aðeins fyrsta flokks ráðgjöf handa viðskiptavinum okkar heldur tryggir það einnig að þjónustan sé eins hagkvæm og kostur er. Þá starfa reyndir málflytjendur fyrir dómsstólum landsins á öllum fagsviðum LEX.
Karl Axelsson skipaður dómari við Hæstarétt Íslands
10. október, 2015Karl Axelsson, hæstaréttarlögmaður á LEX og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, hefur verið skipaður dómari við Hæstarétt Íslands. Karl er einn af reynslumestu lögmönnum LEX og í hópi virtustu lögmanna landsins.
Karl hefur sérhæft sig í eignar-, fasteigna- og auðlindarétti og hefur kennt laganemum eignarrétt við Háskóla Íslands síðastliðin 23 ár. Hann hefur flutt fjölda dómsmála, þar af mörg prófmál, fyrir Hæstarétti frá því hann hlaut málflutningsréttindi fyrir réttinum árið 1997. Þá hefur hann sinnt verjendastörfum í ýmsum erfiðum sakamálum. Karl var settur hæstaréttardómari frá 16. október 2014 til 30. júní 2015.
Karl hefur verið eftirsóttur ráðgjafi og sinnt bæði einstaklingum, félagasamtökum og hinu opinbera í störfum sínum hjá LEX. Hann hefur setið í og leitt starf fjölmargra stjórnskipaðra nefnda, m.a. á sviði stefnumörkunar í auðlinda- og orkumálum og um starfsumhverfi fjölmiðla. Einnig hefur hann komið að gerð fjölmargra lagafrumvarpa á sínum sérsviðum, samið greinar um lögfræðileg málefni og flutt fjölda fyrirlestra, einkum á sviði eignarréttar.
Karl hefur tekist á hendur mörg mikilvæg lögfræðileg verkefni á síðustu árum; hann gætti hagsmuna Tryggingasjóðs innstæðueigenda vegna kröfugerðar hollenska seðlabankans og breska innistæðusjóðsins. Eitt umfangsmesta verkefni hans fyrir stjórnvöld var svo umsjón með úrlausn deilna um þjóðlendur á hálendi Íslands.
Karl er kvæntur Margréti Reynisdóttur og á með henni tvær dætur. Í tómstundum sinnir Karl skógrækt, stangveiði og sinnir málefnum Knattspyrnufélagsins Vals þar sem hann hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa.
—
Örn Gunnarsson, faglegur framkvæmdastjóri LEX lögmannsstofu: „Lögmenn hafa lengi bent á mikilvægi þess að fleiri dómarar í Hæstarétti búi yfir reynslu af lögmennsku. Það er því í senn ánægjulegt fyrir lögmannastéttina og þessa lögmannsstofu, sem Karl hefur tekið þátt í að byggja upp á undanförnum áratugum, að honum hlotnist sú mikla viðurkenning starfa sinna sem varanleg skipun hæstaréttardómara er. Samstarfsfólk hans hér hjá LEX óskar honum innilega til hamingju með embættið og veit að hann mun sinna starfi sínu í þágu lands og þjóðar af trúmennsku og einurð.“
Karl Axelsson, fráfarandi meðeigandi LEX lögmannsstofu: „Ég kveð samstarfsfólk mitt á LEX með söknuði en hlakka um leið mjög til þess verkefnis sem bíður mín. Hafandi gert lögin að ævistarfi þá eru fá viðfangsefni jafn göfug og að sinna störfum fyrir æðsta dómstól lýðveldisins. Ég mun leggja mig allan fram um að vera verðugur þess mikla trausts sem mér er sýnt með skipan í embætti hæstaréttardómara.“
Aftur í fréttasafn