Fróðleikur
Lögmenn LEX eiga í nánu samstarfi við viðskiptavini, hafa frumkvæði í lausnum og ráðgjöf, faglegri nálgun verkefna og stöðugri umbótahugsun.
LEX hefur um langt skeið veitt fyrirtækjum, opinberum stofnunum og einstaklingum víðtæka þjónustu á öllum sviðum og eru lögmenn LEX á meðal fremstu sérfræðinga landsins á sviði persónuverndar, hugverka-, fjarskipta- og upplýsingatækniréttar og veita alhliða þjónustu á þessum réttarsviðum.
Þá býður LEX einnig upp á sérhæfða þjónustu til fyrirtækja sem fást við þróun hugbúnaðar og gervigreindar, gerð gagnagrunna eða notast við tæknilausnir í störfum sínum og veita auk þess þjónustu á sviði rafrænna viðskipta og fjártækni
Snjallsamningar (e. smart contracts)
6. febrúar, 2020Snjallsamningar (e. smart contracts) Grein eftir Láru Herborgu Ólafsdóttur sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 20. desember 2018.
Árið 1994 gerði tölvunarfræðingurinn Nick Szabo fyrst grein fyrir hugmyndum sínum um svokallaða snjallsamninga (e. smart contracts) sem byggðust einkum á forritunartexta. Orðið snjallsamningur getur valdið ákveðnum misskilningi, þar sem snjallsamningar eru ekki samningar í hefðbundnum lagalegum skilningi, heldur öllu fremur framkvæmd skipunar fyrir tilstilli tölvukóða, t.d. „Ef A, þá B“. Eitt elsta dæmi um snjallsamning er kaup á vöru í sjálfsala. Einstaklingur setur mynt eða greiðslukort í sjálfsala og fær umbeðna vöru afhenta þegar sjálfsalinn hefur staðfest greiðsluna, án nokkurs milligönguaðila.
Sú öra tækniþróun sem nú á sér stað hefur verið talin ógna hinum ýmsu starfsstéttum og því verið teflt fram að sumar þeirra geti jafnvel orðið óþarfar þegar fram líða stundir. Hefur slík umræða meðal annars beinst að lögfræðistéttinni, einhverjum vafalaust til nokkurrar gleði. Eitt þeirra atriða sem talin hafa verið upp í þessu samhengi er notkun snjallsamninga með aðstoð bitakeðjutækni (e. blockchain technology), en með tilkomu Ethereum og annarra fyrirbrigða sem knúin eru af bitakeðjutækninni hefur áhugi á slíkum samningum aukist til muna. Hefur því verið teflt fram að notkun snjallsamninga geri aðkomu milligönguaðila á borð við lögfræðinga raunar óþarfa – ekki ósvipað og í dæminu er varðar sjálfsalann hér að ofan.
Bitakeðjutækni má í stuttu máli skilgreina sem rafrænan gagnagrunn sem geymir upplýsingar og færslur í dreifðri og samnýttri færsluskrá. Bitakeðjan heldur skrá yfir hverja færslu sem gerð er í sambandi við bita (e. block), í gegnum jafningjanet (e. peer-to-peer) sem er sérstök tilhögun um deilingu gagna og gögnum er deilt á milli notenda í stað þess að vera með einn höfuðmiðlara. Allir bitar í keðjunni eru tengdir og eldri bitarnir hafa að geyma upplýsingar fyrir bitana sem á eftir koma, og er því nær ómögulegt að breyta bitakeðjunni. Viðskipti í gegnum snjallsamninga á bitakeðju eru því bæði rekjanleg og óbreytanleg.
Þrátt fyrir að slík viðskipti geti aukið sjálfvirkni ýmissa ferla, eru umtalsverðir lagalegir óvissuþættir til staðar. Snjallsamningar af umræddum toga gera í eðli sínu almennt ekki ráð fyrir því að vafaatriði geti komið upp. Við forritun þeirra er erfitt að sjá fyrir allt sem hugsanlega gæti komið upp og heimfært það yfir á tölvukóða. Getur það því reynst snúið ef óvænt atvik koma upp, s.s. ef snjallsamningar innihalda villu eða eru framkvæmdir á rangan hátt. Þar sem færsluskrá er hýst hjá mörgum aðilum um heim allan, getur verið erfitt að afmarka lögsögu og þannig þau lög sem gilda um viðskiptin. Þá geta ennfremur, af tæknilegum ástæðum, komið upp álitamál um hverjir eru aðilar að baki slíkum viðskiptum, þar sem þau fara öll fram á bitakeðjunni.
Að auki hefur sú spurning vaknað hvort hægt sé að fá fullnustu slíkra snjallsamninga fyrir atbeina dómstóla. Erfitt er að henda reiður á hvernig dómstólar myndu leysa úr vandamálum sem upp gætu komið vegna framkvæmdar skipana fyrir tilstilli tölvukóða. Dómstólar gætu til dæmis staðið frammi fyrir því að þurfa að rýna í tölvukóða og taka afstöðu til þess hvort snjallsamningar teljist yfir höfuð skuldbindandi að lögum. Á þetta sérstaklega við þegar aðilar reiða sig einvörðungu á tölvukóða í stað hefðbundins samnings samhliða, hvers hlutar eru svo yfirfærðir á tölvukóða og bitakeðju (e. hybrid contracts).
Af framangreindu verður að telja mikilvægt að við notkun snjallsamnings sé í upphafi tryggt að hann rúmist innan hefðbundins lagaramma, t.d. með gerð löggernings sem kveður á um öll helstu atriði viðskiptanna, hvaða reglur skuli gilda og með hvaða hætti leysa skuli úr ágreiningi. Á meðan ekki er til staðar regluverk er lýtur beinlínis að umræddri tækni, verður að telja að samhliða samningar séu heppileg lausn fyrir þá sem nýta vilja möguleika tækninnar. Þannig gætu aðilar notið góðs af skilvirkni tækninnar án þess að fyrirgera rétti sínum komi til ágreinings við síðara tímamark.
Til baka í yfirlit